Fótbolti

Benzema hlaut Gull­boltann

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Karim Benzema, Gullboltinn og Zindedine Zidane.
Karim Benzema, Gullboltinn og Zindedine Zidane. France Football

Karim Benzema, framherji Real Madríd, hlaut í kvöld Gullboltann, Ballon d'Or. Hann spilaði risastóran þátt í frábæru gengi Real á síðustu leiktíð þegar liðið varð bæði Spánar- og Evrópumeistari. Er þetta í fyrsta sinn sem hann hlýtur verðlaunin.

Hinn 34 ára gamli Benzema var hreint út sagt stórkostlegur á síðustu leiktíð en framherjinn frá Frakklandi virðist eldast eins og gott rauðvín. Hann skoraði 27 mörk og gaf 12 stoðsendingar í 32 leikjum í La Liga, spænsku úrvalsdeildinni.

Í Meistaradeild Evrópu skoraði hann 15 mörk í 12 leikjum ásamt því að gefa tvær stoðsendingar þegar Real fór alla leið og varð Evrópumeistari í 14. sinn. Zinedine Zidane, samlandi Benzema, veitti honum verðlaunin eins og sjá má hér að neðan.

Sadio Mané, leikmaður Liverpool á síðustu leiktíð og Bayern München nú, var í öðru sæti á meðan Kevin De Bruyne, miðjumaður Manchester City, var í þriðja sæti. Þar á eftir komu Robert Lewandowski [Bayern München og Barcelona] og Mohamed Salah [Liverpool].

Fyrr í kvöld var tilkynnt að Alexia Putellas, miðjumaður Barcelona og Spánar, hefði hlotið Gullboltann í kvennaflokki. Var hún að verja titil sinn ef svo má að orði komast þar sem hún vann einnig í fyrra. 


Tengdar fréttir

Put­ellas hlaut Gull­boltann annað árið í röð

Alexia Putellas, miðjumaður Barcelona, hlaut í kvöld Gullboltann, Ballon d'Or. Hún vann einnig í fyrra og hefur því unnið verðlaunin alls tvisvar en þau hafa aðeins verið gefin þrívegis í kvennaflokki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×