Innlent

Gerður nýr for­maður flótta­manna­nefndar

Atli Ísleifsson skrifar
Gerður Gestsdóttir.
Gerður Gestsdóttir. Stjr

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur skipað Gerði Gestsdóttur sem formann flóttamannanefndar.

Frá þessu segir á vef stjórnarráðsins. Þar kemur fram að Gerður sé mannfræðingur að mennt og sérfræðingur í málefnum innflytjenda og flóttafólks. 

„Hún hefur starfað innan málaflokksins síðan upp úr aldamótum, sem verkefnastjóri fræðsludeildar Alþjóðahúss, verkefnastjóri félagslegra verkefna hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands í Níkaragva og ráðgjafi innflytjenda hjá Vinnumálastofnun, auk þess að starfa sjálfstætt við rannsóknir, fræðslu, þýðingar og túlkun. Í dag starfar hún sem málstjóri í samræmdri móttöku flóttafólks hjá Reykjavíkurborg.

Árið 2017 fékk Gerður styrk frá Þróunarsjóði innflytjendamála hjá félagsmálaráðuneytinu til að rannsaka afdrif kólumbískra flóttakvenna á vinnumarkaði. Ári síðar fékk hún styrk frá VIRK-starfsendurhæfingu til að vinna rannsókn á aðgengi innflytjenda að starfsendurhæfingu og árangri hennar.

Aðrir fulltrúar í flóttamannanefnd eru Gunnlaugur Geirsson og Anna Hjartardóttir. Áheyrnarfulltrúar eru Nína Helgadóttir, Þórður Kristjánsson og Þórarinn Bjarnfinnur Snorrason. Ásta Margrét Sigurðardóttir, lögfræðingur í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, er starfsmaður nefndarinnar.

Hlutverk flóttamannanefndar er meðal annars að leggja til við ríkisstjórn heildarstefnu og skipulag á móttöku þeirra hópa flóttamanna sem stjórnvöld bjóða til landsins, hafa yfirumsjón með móttökunni og veita stjórnvöldum umsögn um einstök tilvik eftir því sem óskað er. Flóttamannanefnd starfar í samvinnu og samráði við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna,“ segir í tilkynningunni.

Gerður tekur við formennsku í nefndinni af Stefáni Vagni Stefánssyni, þingmanni Framsóknarflokksins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×