Innlent

„Höfum kannski ekki verið að skoða hvort þetta sé Hel­veti­ca eða Ari­al“

Snorri Másson skrifar

Töluvert misræmi er á leturgerð á götuskiltum Reykjavíkurborgar, sem stingur fólk mismikið í augun. Skrifstofustjóri hjá borginni segir að leturgerð hafi orðið út undan í samræmingarferlum borgarinnar en lofar bót og betrun.

Á samfélagsmiðlum hafa sumir hverjir sopið hveljur vegna misræmis af þessum toga, sem má finna víða um borgina eftir að farið var að setja upp nýja gerð af skiltum.

Mjög skýrt dæmi er við Kaplaskjólsveg, þar sem nýtt skilti og gamalt eru hlið við hlið. Hjalti Jóhannes Guðmundsson, skrifstofustjóri reksturs og umhirðu hjá Reykjavíkurborg, segir misræmið helgast af því að skipt hefur verið við mismunandi aðila í mismunandi útboðum í gegnum tíðina. Þetta sé þó ekki nógu gott svona.

Hjalti Jóhannes Guðmundsson, skrifstofustjóri reksturs og umhirðu hjá Reykjavíkurborg, segir verra að vera með misræmi í skiltum borgarinnar en að framvegis verði gætt að þessu atriði.Vísir

„Við munum skoða þetta og auðvitað þarf að gæta samræmis í þessum málum sem öðrum, það sem við höfum kannski aðallega verið að skoða í þessum útboðum varðandi skilti og götugögn er ákveðin rýmd, hæð, lengd og staðsetning en við höfum kannski ekki verið að skoða hvort þetta sé Helvetica eða Arial,“ segir Hjalti í samtali við fréttastofu.

Skilti með gisnari og örlítið skýrari texta virðast vera nýja tegundin og hún hefur breitt úr sér víða um borg. „Það er auðvitað þannig að sitt sýnist hverjum en auðvitað verður þetta bara að vera í innra samræmi og við munum skoða það,“ segir Hjalti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×