Innlent

Ráð­herra segir heimildir til að aftur­kalla á­kvörðun „mjög tak­markaðar“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Harpa Þórisdóttir og Lilja Alfreðsdóttir við skipun Hörpu í embætti þjóðminjavarðar.
Harpa Þórisdóttir og Lilja Alfreðsdóttir við skipun Hörpu í embætti þjóðminjavarðar. Stjórnarráðið

Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra segist ekki geta afturkallað skipun Hörpu Þórsdóttur, safnstjóra Listasafns Íslands, í stöðu Þjóðminjavarðar, þar sem heimildir stjórnvalds til að breyta og/eða afturkalla ákvörðun séu „mjög takmarkaðar og háðar þröngum skilyrðum“.

Þetta kemur fram í svari ráðherra við fyrirspurn Fréttablaðsins, þar sem vísað er til rits um stjórnsýslulög eftir Pál Hreinson frá 1994. Þar segir:

„Ef stjórnvöld hefðu alveg frjálsar hendur um það hvort og hvenær þau tækju ákvarðanir til endurskoðunar, myndi rísa óviðunandi réttar­óvissa. Af þeim sökum eru reistar skorður við því, bæði í skráðum og óskráðum reglum, hvenær hægt er að taka ákvörðun til endurskoðunar.“

Ráðherra segir einnig að ákvörðun um skipun Hörpu hefði verið tekin á faglegum forsendum. Málefnalegar forsendur væru ekki fyrir hendi til að afturkalla flutning Hörpu milli starfa, þrátt fyrir ítrekuð og hávær mótmæli fagfólks.

Eins og fram hefur komið var búið að semja auglýsingu í ráðuneytinu um starf þjóðminjavarðar þegar Skúli Eggert Þórðarson ráðuneytisstjóri lagði fram þá tillögu að flytja Hörpu milli starfa. 

Fagfólk hefur hins vegar harðlega gagnrýnt ákvörðunina og segir meðal annars að með flutningnum hafi aðrir verið rændir tækifærinu til að spreyta sig í umsóknarferlinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.