Fótbolti

Tyrkir senda hermenn til Katar vegna HM í fótbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tyrkneskir hermenn munu hjálpa til við öryggisgæslu á HM í Katar sem hefst í næsta mánuði.
Tyrkneskir hermenn munu hjálpa til við öryggisgæslu á HM í Katar sem hefst í næsta mánuði. Getty/Serhat Cagdas

Tyrkneska fótboltalandsliðinu tókst ekki að tryggja sér sæti á heimsmeistaramótinu í Katar en það verða engu að síður margir Tyrkir á svæðinu þegar keppnin hefst í næsta mánuði.

Tyrkneska ríkisstjórnin hefur samþykkt að senda hermenn til Katar til að hjálpa við öryggisgæslu á meðan mótinu stendur. Heimsmeistaramótið fer að þessu sinni fram frá 20. nóvember til 18. desember til að forðast mikinn hita í Katar yfir sumarmánuðina.

Allt að milljón stuðningsmenn landsliðanna sem keppa á HM munu ferðast til Katar en mótið fer í raun fram á tiltölulega litlu svæði vegna smæðar landsins. Katar er aðeins 158. stærsta land heims að flatarmáli og næstum því tíu sinnum minna en Ísland.

Stjórnarandstæðingar í Tyrklandi hafa gagnrýnt þessa ákvörðun og hafa sakað stjórnvöld um að leyfa öryggisþjónustufyrirtæki að nota tyrkneska hermann og lögreglumenn sem starfsfólk hjá sér.

Samkvæmt Fikri Isik úr ríkisstjórn Tayyip Erdogan, þá munu Tyrkir senda 250 hermenn og herskip til Katar vegna heimsmeistaramótsins.

Áður hafði verið tilkynnt að 3250 lögreglumenn frá Tyrklandi munu starfa við mótið.

Tyrkir eru með herstöð í Katar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×