Fótbolti

Lærisveinninn tók við af Guðjóni: „Fengið frábæran skóla undanfarin ár“

Sindri Sverrisson skrifar
Brynjar Kristmundsson skrifaði undir samning til tveggja ára.
Brynjar Kristmundsson skrifaði undir samning til tveggja ára. Víkingur Ólafsvík

Víkingur Ólafsvík hefur fundið arftaka Guðjóns Þórðarsonar og leitaði ekki langt yfir skammt því nýr þjálfari karlaliðs félagsins í fótbolta er heimamaðurinn Brynjar Kristmundsson.

Brynjar skrifaði undir samning til tveggja ára. Hann hefur undanfarin þrjú ár starfað sem aðstoðarþjálfari félagsins og var samkvæmt tilkynningu Víkings fyrsti kostur í starfið.

Brynjar er þrítugur og á að baki 115 deildarleiki fyrir Víking en hann var til að mynda í liðinu sem spilaði í efstu deild árið 2013, fyrsta tímabil Víkings í deild þeirra bestu. Fyrstu leikina fyrir liðið lék hann 16 ára gamall, árið 2008. Síðustu ár hefur hann hins vegar snúið sér að þjálfun og verður nú aðalþjálfari.

„Starfið leggst mjög vel í mig. Félagið hefur verið risastór partur af mínu lífi og er ég virkilega stoltur að vera kominn í þetta starf,“ sagði Brynjar við undirskriftina og bætir við að hann hefði sótt mikla reynslu hjá forvera sínum, Guðjóni Þórðarsyni.

„Ég hef fengið frábæran skóla undanfarin ár og að hafa starfað með manni eins og Guðjóni hefur verið mjög dýrmæt reynsla fyrir mig,“ sagði Brynjar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×