Fjórir voru handteknir vegna málsins. Myndin er úr safni.Vísir/Vilhelm
Farið verður fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir tveimur mönnum sem eru í varðhaldi vegna rannsóknar lögreglu á meintri skipulagningu hryðjuverka.
Þetta staðfestir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari í samtali við fréttastofu. Gæsluvarðhaldið rennur út á morgun en mennirnir hafa nú þegar setið í gæsluvarðhaldi í tvær vikur.
Fjórir menn voru upphaflega handteknir í aðgerðum lögreglu þann 21. september síðastliðinn og voru tveir úrskurðaðir í gæsluvarðhald í kjölfarið, einn í einnar viku og annar í tveggja vikna gæsluvarðhald.
Lagt var hald á tugi skotvopna og þrívíddarprentara í aðgerðum lögreglu en mennirnir eru grunaðir um að hafa framleitt vopn í þeim.
Á fréttamannafundi lögreglunnar í síðustu viku kom fram að í sautján húsleitum vegna málsins hafi verið lagt hald á tugi skotvopna, og þar af nokkur þrívíddarprentuð vopn. Meirihluti vopnanna hafi verið verksmiðjuframleiddur.
Einnig kom fram í síðustu viku af Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri hafi sagt sig frá rannsókn á málinu vegna mögulegs vanhæfis. Samkvæmt heimildum fréttastofu var það vegna þess að nafn föður hennar kom upp við skýrslutökur sakborninga hjá lögreglu.
Lögreglan krefst áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir einum þeirra sem handtekinn var í umfangsmiklum aðgerðum í tengslum við mögulega hryðjuverkaógn. Búið er að boða til blaðamannafundar á morgun klukkan þrjú.
Það er alveg klárt að fullt tilefni hafi verið til að ráðast í þær aðgerðir sem ráðist var í síðustu viku vegna gruns um að einstaklingar væru að leggja á ráðin um að fremja hryðjuverk hér á landi, og að hættuástandi hafi verið afstýrt með aðgerðum lögreglu. Ríkislögreglustjóri hefur sagt sig frá rannsókn málsins vegna mögulegs vanhæfis.
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.