Fótbolti

Sá besti í Þýskalandi fer til Chelsea næsta sumar

Valur Páll Eiríksson skrifar
Nkunku fer til Chelsea næsta sumar.
Nkunku fer til Chelsea næsta sumar. ANP via Getty Images

Chelsea hefur fest kaup á Frakkanum Christopher Nkunku og mun hann ganga til liðs við félagið frá RB Leipzig í Þýskalandi næsta sumar.

Klásúla um 60 milljón evra riftun á samningi Nkunku tekur gildi næsta sumar en Chelsea er sagt hafa fallist á að borga meira en það til að festa kaup á Frakkanum áður en klásúlan virkjast. Þannig sleppur enska liðið við kapphlaup um undirskrift Frakkans.

Nkunku er sagður hafa samið um kaup og kjör við félagið og gengið undir læknisskoðun. Hann mun ganga í raðir Chelsea þegar félagsskiptaglugginn opnar næsta sumar og verður samningsbundinn Lundúnaliðinu til 2026. Chelsea hefur þar með betur í baráttunni við Paris Saint-Germain og fleiri stórlið sem voru á eftir Nkunku en hann er uppalinn hjá Parísarliðinu.

Nkunku er 24 ára gamall og átti framúrskarandi leiktíð með Leipzig í fyrra. Hann skoraði 35 mörk og lagði upp 20 í 52 leikjum í öllum keppnum og var valinn besti leikmaður þýsku deildarinnar.

Hann hefur viðhaldið góðu formi sínu í upphafi þessarar leiktíðar þar sem hann hefur skorað átta mörk í tólf leikjum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.