Fótbolti

Samherji Guðlaugs skoraði sjálfsmark og sá rautt í tapi DC United

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Donovan Pines átti ekki sinn besta leik í nótt.
Donovan Pines átti ekki sinn besta leik í nótt. Randy Litzinger/Icon Sportswire via Getty Images

Donovan Pines, samherji Guðlaugs Victors Pálssonar hjá DC United, átti ekki sinn besta leik er liðið heimsótti CF Montreal í bandarísku MLS-deildinni í fótbolta í nótt.

Pines skoraði eina mark leiksins, en það gerði hann í rangt mark. Hann kom heimamönnum yfir stuttu fyrir hálfleikshléið og staðan því 1-0 þegar gengið var til búningsherbergja.

Ekki náði Pines að bæta upp fyrir mistök sín í síðari hálfleik, en þegar um tíu mínútur voru til leiksloka gerðist hann brotlegur innan eigin vítateigs og fékk að launum að líta beint rautt spjald.

Joaquin Torres steig á punktinn fyrir CF Montreal en misnotaði spyrnuna. Kannski var það örlítil sárabót fyrir Pines, en þrátt fyrir það nokkuð ljóst að leikmaðurinn hefur átt betri leiki.

Guðlaugur Victor var í byrjunarliði DC United og lék tæpar 70 mínútur í hægri bakverði. Liðið situr á botni Austurdeildarinnar með 27 stig þegar liðin eiga aðeins einn leik eftir af tímabilinu áður en úrslitakeppnin tekur við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×