Fótbolti

Tíu leikmenn Frankfurt fyrstir til að vinna toppliðið | Dortmund missti af toppsætinu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jesper Lindstrom og Mario Götze skoruðu mörk Frankfurt.
Jesper Lindstrom og Mario Götze skoruðu mörk Frankfurt. Alexander Hassenstein/Getty Images

Frankfurt varð í dag fyrsta liðið á tímabilinu til að leggja Union Berlin að velli í þýsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag er liðið vann 2-0 sigur, þrátt fyrir að vera manni færri seinustu tuttugu mínútur leiksins. Þá mátti Borussia Dortmund þola 3-2 tap gegn Köln, en sigur hefði lyft liðinu upp fyrir Union Berlin í toppsæti deildarinnar.

Það voru Mario Götze og Jesper Lindstrom sem sáu um markaskorun Frankfurt gegn Union Berlin, en bæði mörkin voru skoruð í fyrri hálfleik.

Randal Kolo Muani fékk að líta sitt annað gula spjald í liði Frankfurt á 69. mínútu og þar með rautt. Þrátt fyrir að leika manni fleiri seinustu tuttugu mínútur leiksins tókst toppliðið Union Berlin ekki að nýta sér liðsmuninn og niðurstaðan því 2-0 sigur Frankfurt.

Union Berlin heldur þó toppsæti deildarinnar með 17 stig eftir átta leiki, þrem stigum meira en Frankfurt sem lyftir sér upp í fimmta sæti.

Þá mátti Borussia Dortmund þola 3-2 tap er liðið heimsótti FC Köln. Julian Brandt kom gestunum í Dortmund yfir eftir hálftíma leik, en Florian Kainz, Steffen Tigges og Dejan Ljubicic sáu til þess að heimamenn komust í 3-1 með mörkum í síðari hálfleik.

Gestirnir náðu að minnka muninn undir lok leiks þegar Benno Schmitz varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net, en ekki urðu mörkin fleiri og niðurstaðan því 3-2 sigur Köln.

Dortmund situr því í fjórða sæti deildarinnar með 15 stig eftir átta leiki, tvemur stigum fyrir ofan Köln sem situr í sjöunda sæti. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.