Innlent

Mjög sér­stakt að styrkja raf­bíla­kaup eins mikið þegar margir hefðu keypt sér bílinn án stuðnings

Snorri Másson skrifar

Strætó fékk einn milljarð úr ríkissjóði í fyrra á meðan endurgreiðslur vegna rafbíla námu níu milljörðum króna - nokkuð sem sérfræðingur hjá Alþýðusambandi segir rosalegan mun. Mjög sérstakt sé að stjórnvöld dæli peningum í óskilvirkar loftslagsaðgerðir í stað þess að styðja betur við almenningssamgöngur.

Róðurinn hefur verið þungur hjá Strætó að undanförnu. Fyrirtækið bráðvantar peninga og neyddist til að hækka fargjöld á dögunum. Komið hefur fram að Strætó þurfi 1,5 milljarð frá eigendum sínum, sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu.

Í þessu umhverfi er það ekki beint svo að ríkið hlaupi undir bagga. Framlög þess til Strætó eru ekki mikil; í fyrra námu þau einum milljarði króna - sem hefur verið sagt blikna í samanburði við ívilnanir sem fara til rafbílakaupenda - það eru rúmir níu milljarðar króna samkvæmt ASÍ.

„Þetta er rosalegur munur. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem er verið að hækka gjaldskrá Strætó. Eins hefur þjónustan verið skert. Og þetta er mjög sérstakt í ljósi þess að niðurgreiðsla rafbíla er talin frekar óskilvirk loftslagsaðgerð og óhagkvæm,“ segir Auður Alfa Ólafsdóttir sérfræðingur ASÍ í umhverfis- og neytendamálum í samtali við fréttastofu.

Auður segir að einnig þurfi að líta til umferðarþungans í Reykjavík, sem almenningssamgöngur væru betur til þess fallnar að leysa. Ef litið sé til tekna af fargjöldum sé ljóst að það hefði kostað 1,8 milljarð að gera Strætó ókeypis árið 2021 - aðeins brot af því sem fór í rafbílana. Auður segir rafbílaívilnanirnar skýrt dæmi um verk ríkisstjórnar, sem hygli hinum efnameiri á kostnað fátækra.

„Rannsóknir benda til þess að þetta sé ekki skilvirk leið til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og að kaupendur rafbíla hefðu keypt sér rafbíl þótt ívilnana nyti ekki við. Þetta er bara í algerri andstöðu við þessi réttlátu umskipti sem er kveðið á um í ríkisstjórnarsáttmálanum að eigi að vera leiðarljósið í yfirstandandi breytingum,“ segir Auður.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×