Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag en þar segir meðal annars að á Safnaþingi á dögunum hafi Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra greint frá því að tillaga um þjóðminjavörð hefði borist á hennar borð.
Þá segir Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, formaður Íslandsdeildar Alþjóðasafnaráðsins, að á fundi með ráðherra á mánudag hefði Skúli Eggert Þórðarson ráðuneytisstjóri sagt að auglýsing um starfið hefði verið tilbúin í sumar en síðan hefði verið sveigt af leið.
„Það er óreiða í svörum ráðherra um það hvernig farið var í þessa vegferð,“ hefur Fréttablaðið eftir Sigurjóni B. Hafsteinssyni, prófessor í safnafræði við Háskóla Íslands.
Fréttablaðið segist hafa beðið í tvo daga eftir svörum frá ráðherra við því hvers vegna hún telji sig ekki geta afturkallað skipun Hörpu Þórsdóttur í starf þjóðminjavarðar.
Þá hafa blaðinu ekki borist svör við fyrirspurn til Hörpu, þar sem hún er spurð að því hvort hún hafi sjálf gert tillögu að því að vera færð til í starfi og hvort hún hafi íhugað að höggva á hnútinn með því að afþakka stöðuna.
Þess ber að geta að fréttastofa Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar hefur í margar vikur leitast eftir því að fá bókað viðtal við Lilju um málið og sent ráðherra spurningar en án árangurs. Ráðherra svaraði hins vegar spurningum eftir ríkisstjórnarfund á þriðjudag.