Fótbolti

Finnsku meistararnir fá himinháa sekt fyrir „UEFA mafíu“ söngva

Valur Páll Eiríksson skrifar
HJK tapaði leiknum við Betis 2-0.
HJK tapaði leiknum við Betis 2-0. EPA-EFE/KIMMO BRANDT

Finnlandsmeistarar HJK Helsinki hafa verið sektaðir um 18 þúsund evrur vegna óláta áhorfenda liðsins í 2-0 tapi þess fyrir Real Betis frá Spáni í fyrstu umferð í riðlakeppni Evrópudeildarinnar fyrr í þessum mánuði.

Sex áhorfendur hlupu inn á völlinn eftir að lokaflautið gall, sem er stranglega bannað samkvæmt reglum Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA. Sambandið sektaði HJK um átta þúsund evrur vegna þess.

Lögregluyfirvöld í Helsinki hafa borið kennsl á mennina sem hlupu inn á völlinn og mun HJK krefjast bóta frá þeim samkvæmt yfirlýsingu félagsins í dag.

HJK var hins vegar sektað um 10 þúsund evrur til viðbótar vegna „ögrandi og móðgandi skilaboða“. Þar er átt við söngva stuðningsmanna HJK þar sem UEFA var kölluð mafía.

HJK þarf því að punga út 18 þúsund evrum, um tveimur og hálfri milljón króna, vegna óláta stuðningsmanna liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×