Fótbolti

Guð­rún í riðla­keppnina eftir sigur á Svövu Rós

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rosengård er komið í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.
Rosengård er komið í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Rosengård

Guðrún Arnarsdóttir og stöllur hennar í sænska úrvalsdeildarliðinu Rosengård eru komnar í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta eftir sigur á norska liðinu Brann þar sem Svava Rós Guðmundsdóttir leikur.

Svava Rós skoraði í fyrri leiknum sem lauk með 1-1 jafntefli. Það var því ljóst að sigurvegari kvöldsins myndi tryggja sér sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Til mikils var að vinna en miklir fjármunir eru í húfi sem og leikir gegn sterkustu liðum Evrópu.

Fyrri hálfleikur var markalaus og allt í járnum. Í þeim síðari var annað upp á teningnum en heimaliðið setti í fluggírinn. Sofie Bredgaard kom Rosengård yfir á 50. mínútu eftir sendingu Riu Oling. Aðeins fimm mínútum síðar hafði Mimmi Larsson tvöfaldað forystuna, aftur var Oling með stoðsendinguna.

Brekkan því orðin brött fyrir leikmenn Brann þegar aðeins tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Brekkan varð óklífanleg þegar tuttugu mínútur lifðu leiks en þá skoraði Mimmi annað mark sitt og þriðja mark Brann.

Maria Brochmann minnkaði muninn fyrir Brann þegar tæplega tíu mínútur lifðu leiks en það var of lítið of seint. Lokatölur 3-1 og Rosengård komið í riðlakeppnina.

Guðrún lék allan leikinn fyrir miðju í þriggja manna vörn heimaliðsins á meðan Svava Rós var upp á topp hjá Brann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×