Fótbolti

Sá fimmti handtekinn vegna árásinnar á Hamraoui

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kheira Hamraoui hlaut mikla áverka eftir árásina 4. nóvember í fyrra.
Kheira Hamraoui hlaut mikla áverka eftir árásina 4. nóvember í fyrra. getty

Maður hefur verið handtekinn, grunaður um aðild að árásinni á frönsku fótboltakonuna Kheiru Hamraoui.

Hópur grímuklæddra manna réðist á Hamraoui í byrjun nóvember á síðasta ári, drógu hana út úr bíl og börðu hana í fæturna með járnrörum svo það stórsá á henni.

Aminata Diallo, samherji Hamraouis hjá Paris Saint-Germain, var handtekinn, grunuð um að hafa skipulagt árásina til að auk möguleika sína á að fá að spila með liðinu í stað Hamraouis. 

Diallo var svo sleppt og hún hefur alltaf haldið fram sakleysi sínu. En hún var aftur handtekinn á dögunum og ákærð fyrir grófa líkamsárás. Í lögregluskýrslu kemur fram að fyrir árásina hafi Diallo leitað sér upplýsinga á Google hvernig væri best að brjóta hnéskel.

Þetta stórfurðulega mál tók enn einn snúninginn á mánudaginn þegar maður á þrítugsaldri var handtekinn, grunaður um að hafa tekið þátt í árásinni á Hamraoui. Hann er fimmti maðurinn sem er handtekinn vegna málsins. Einn þeirra á að hafa viðurkennt að þeir hafi fengið fimm hundruð evrur fyrir að ráðast á Hamraoui.

Hamraoui hefur ekkert leikið með PSG eftir árásina. Hún gekk í raðir liðsins frá Barcelona í fyrra. Diallo er án félags eftir að samningur hennar við PSG rann út.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.