Innlent

Ekki í anda trúarinnar að tvístra nemendahópum

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Davíð Þór Jónsson, prestur í Laugarneskirkju.
Davíð Þór Jónsson, prestur í Laugarneskirkju. Stöð 2

Séra Davíð Þór Jónsson, sóknarprestur við Laugarneskirkju vísar á bug ásökunum um að kirkjan sé að kynda undir ófriðarbál með því að afþakka kirkjuheimsóknir á vegum grunnskólanna í aðventunni. Ákvörðunin hafi verið tekin sérstaklega til að slökkva ófriðarbál því andstaða hafi við skipulagðar kirkjuheimsóknir hafi farið stigvaxandi. Þá sé það ekki í anda kirkjunnar að skilja börn út undan.

Í tveimur aðskildum skoðanagreinum í Morgunblaði dagsins var ákvörðunin gagnrýnd. Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Einar S. Hálfdánarson eru skrifaðir fyrir pistlunum.

Var kirkjan sökuð um að bregðast hlutverki sínu og um að kveikja nýtt ófriðarbál sem Davíð Þór segir af og frá.

„Við erum þátttakendur í átaki sem heitir „Öll í sama liði“ sem gengur út á að búa til betra og kærleiksríkara mannlíf í hverfunum þar sem enginn er skilinn út undan. Að standa fyrir einhverju þar sem við vitum að börn eru tekin út úr hópnum og þau fá ekki að vera með skólafélögum sínum á skólatíma, það er ekki í anda þeirrar hugmyndafræði.“

Þarna vísar Davíð til þess að börn sem eru annarrar trúar hafa gjarnan verið tekin út úr nemendahópnum á meðan á þessum heimsóknum stendur.

Tveir starfsmenn kirkjunnar, Davíð þar með talinn, eru foreldrar barna í Laugarnesskóla.

„Við verðum vör við það í haust að það á að fara af stað undirskriftarsöfnun á meðal foreldra til þess að fá þessar skólaheimsóknir aflagðar og okkar fyrsta hugsun er bara allt í lagi, þá tökum við bara þann slag en strax kemur næsta hugsun, og hvað? Þá bíður hann eftir okkur næsta haust og þarnæsta haust. Er það hlutverk okkar að vera í slag við hluta af nærsamfélaginu okkar?“

Davíð segist, þvert á fullyrðingar greinarhöfunda, hafa lagt sig fram um að stilla til friðar og því hafi þessi ákvörðun verið tekin.

„Hlustum á mótmælin. Mótmælin eru þessi; það er verið að taka krakka úr hópnum og sundra hópnum. Við viljum ekki vera þess valdandi að það sé gert. Þess vegna tökum við þá ákvörðun að afþakka, vinsamlega, kirkjuheimsóknir skólabarna á vegum skólans.“

Þess í stað ætlar kirkjan að bjóða upp á veglega dagskrá fyrir börn á umræddu aldursbili á hverjum degi í fyrstu viku aðventu á milli klukkan 15 til 17.


Tengdar fréttir

Hádegisfréttir Bylgjunnar

Skipun þjóðminjavarðar, stórfellt rafmagnstjón, kirkjuheimsóknir barna og efnahagskrísa Breta verða meðal umfjöllunarefna í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×