Umfjöllun: Albanía - Ísland 1-1 | Leikur tveggja hálfleika í Tírana og jafntefli niðurstaðan

Árni Jóhannsson skrifar
Ísland Ísrael. Landsleikur karla sumar 2022 fótbolti KSÍ
Ísland Ísrael. Landsleikur karla sumar 2022 fótbolti KSÍ

Það stefndi allt í afleitt kvöld í Albaníu fyrir íslenska landsliðið í fótbolta. Aron Einar Gunnarsson var rekinn út af eftir 10 mínútur og mjög erfiður fyrri hálfleikur. Seinni hálfleikur var allt önnur saga, Ísland betra liðið og sanngjarnt jafntefli niðurstaðan. Ísland endar í öðru sæti riðilsins og hægt að gera sér vonir um að umspil gæti orðið að raunveruleika eftir ár.

Ísland byrjaði leikinn í raun og veru á hælunum í kvöld. Albanir tók fljótt tökin á leiknum og á 10. mínútu dró heldur betur til tíðinda þegar Aron Einar Gunnarsson var rekinn af velli. Aron gerði sekan um klaufaskap en í stað þess að skalla knöttinn frá þá missti hann sóknarmann Albana fram úr sér og greip utan um hann þegar hann var að koma að vítateig Íslendinga. Dómarinn flautaði ekki en myndbandsdómarinn tók í taumana og benti mönnum á vellinum að þarna hafi verið um rautt spjald að ræða.

Því miður var þetta rétt ákvörðun þar sem Aron var síðasti varnarmaður og rændi Albanann augljósu marktækifæri. Það varð því ljóst að næstu 80 mínútur yrðu mjög erfiðar fyrir Strákana okkar.

Leikur liðsins varð tilviljanakenndur í fyrri hálfleik. Sendingar hittu ekki rétta menn, menn stóðu stundum í hnapp í varnarleiknum og Albanir áttu mjög auðvelt með að opna kantana. Þeir fengu mýmargar hornspyrnur og fyrirgjafastöður en sem betur sogaðist boltinn að varnarmönnum Íslands sem skölluðu boltann ítrekað í burtu. 

Stíflan brast hinsvegar á 35. mínútu þegar Lenjani skoraði mark. Enn og aftur var of auðvelt að sprengja upp kantinn fyrir albanska liðið. Hörður Björgvin náði ekki að skalla fyrirgjöf Uzuni í burtu og Lenjani smurði knettinum í vinkilinn með enninu. Frábært mark svo sem en það var margt sem hefði verið hægt að gera betur.

Fyrri hálfleikur leið undir lok með sama sniði og áður og blaðamanni fannst það vera mjög góð staða að ekki hafi fleiri mörk litið dagsins ljós. Það þurfti því ekki nema eitt augnablik til að jafna leikinn í seinni hálfleik.

Seinni hálfleikur hófst og það var strax augljóst að hálfleiksræða Arnars Þórs hafi svínvirkað. Ísland hafði sýnt í fyrri hálfleik að það var hægt að pressa á Albani og skapa stress í leik heimamanna. Íslendingar komur brjálaðir til leiks og krafturinn var gífurlegur með Guðlaug Pál í fararbroddi.

Rúnar Alex Rúnarsson setti einnig tóninn með því að verja frábærlega á 53. mínútu en hann átti frábærar vörslur seinna í leiknum en það hefur væntanlega aukið á örvæntingu heimamanna. 

Ísland hélt áfram að berjast og karakter liðsins var mjög góður í þessum seinni hálfleik. Það leit aldrei út fyrir að Íslendingar væru einum manni færri og settu Albani undir mikla pressu. Það sem var að klikka voru sendingar sem hefðu getað skapað færin sem þurfti en stöðurnar urðu góðar og vonin og sjálfstraustið jókst eftir því sem leið á. Varnarleikurinn var líka betri og baráttan gífurleg.

Á 69. mínútu var gerð þreföld breyting á íslenska liðinu. Hákon Arnar, Mikael Egill og Mikael Anderson komu inn á og með þeim kom mikill kraftur sem var mikilvægur á síðustu mínútunum. Hraði þeirra og kraftur skapaði usla og stressið jókst hjá Albönum sem höfðu legið undir gagnrýni frá sínum eigi stuðningsmönnum.

Færin létu á sér standa en pressan jókst. Liðin kláruðu skiptingarnar sínar og það átti eftir að hafa mikil áhrif. Varnarmaður Albana Ismail tognaði aftan í lærinu og þurfti að bera hann útaf og því urðu jafnmargir leikmenn í liðinu síðustu fimm mínútur af venjulegum leiktíma og sjö mínúturnar sem bætt var við í uppbótartíma.

Íslendingar héldu áfram og uppskáru síðan markið sem manni fannst liðið eiga skilið á sjöttu mínútu uppbótartímans. Þórir Jóhann Helgason komst upp hægri kantinn og átti frábæra sendingu sem rataði í gegnum vítateiginn og alla leið á fjærstöng þar sem Mikael Anderson var mættur til að dúndra boltanum í þaknetið. Hann trylltist úr fögnuði og þrátt fyrir að VAR hafi ætlað að skoða markið þá var fagnað gríðarlega því það var aldrei vafi á því að þetta mark myndi standa.

Þar við sat og jafntefli niðurstaðan. Ísland heldur því öðru sætinu og möguleiki á að fara í umspil í gegnum Þjóðardeildina er enn lifandi ef Ísland fer ekki beint á EM 2024 sem verður alveg möguleiki ef þessi karakter heldur áfram.

Afhverju var jafntefli niðurstaðan?

Ísland gafst aldrei upp. Þeir létu ekki erfiðan fyrri hálfleik stoppa sig í að gera atlögu að albanska liðinu og það var hægt að uppskera eftir mikið vinnuframlag.

Hvað gekk illa?

Í fyrri hálfleik riðlaðist taktur liðsins og var varnarleikurinn og leikurinn í heild sinni tilviljanakenndur.

Hvað gekk vel?

Það gekk vel að halda haus. Hálfleiksræðan hefur einnig gengið vel því liðið gerði hlutina vel og saman og náðu í þetta jafntefli.

Bestir á vellinum?

Margir gera tilkall í seinni hálfleik en Daníel Leó var frábær í vörninni í seinni hálfleik og bjargaði oft því að Albanir hafi náð að komast í færi. Ísak Bergmann gerði vel, Arnór Sig. var góður og Þórir Helgason. Þá sköpuðu þeir leikmenn sem komu inn á mikinn usla í vörn Albana og gerðu það að verkum að Ísland náði jafntefli.

Hvað næst?

Þjóðardeildinni er lokið fyrir Ísland. Næst tekur við undankeppni EM 2024 en ef það er hægt að byggja ofan á þá staðreynd að Ísland var taplaust og þennan karakter sem Ísland sýndi í síðari hálfleik þessa leiks þá er þessu liði allir vegir færir. Það er möguleiki á að gera góða hluti og framtíðin er björt ætla ég að segja.

Dregið verður í riðla í undankeppni EM 2024 þann 9. nóvember næstkomandi.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.