Umfjöllun: Tékkland - Ísland 0-0 | Íslensku strákarnir misstu af sæti á EM

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Íslensku strákarnir misstu af sæti á EM í dag.
Íslensku strákarnir misstu af sæti á EM í dag. Vísir/Diego

Íslenska ungmennalandsliðið skipað leikmönnum 21 árs og yngri missti af sæti á EM á næsta ári er liðið gerði markalaust jafntefli gegn Tékkum ytra í dag. Eftir 2-1 tap á heimavelli er íslenska liðið á heimleið.

Leikurinn var í miklu jafnvægi í fyrri hálfleik og liðin skiptust á að halda boltanum. Íslenska liðið fékk að klappa knettinum nokkuð mikið, en um leið og íslensku strákarnir nálguðust vörn Tékkana gekk illa að finna leiðir í gegn.

Tékkar náðu að skapa sér hættulegar stöður í fyrri hálfleiknum, en Hákon Rafn Valdimarsson þurfti þó ekki að hafa miklar áhyggjur í markinu.

Þrátt fyrir fína frammistöðu beggja liða í fyrri hálfleiknum náði hvorugt liðið að skora og staðan því enn markalaus þegar gengið var til búningsherbergja.

Síðari hálfleikur var svo keimlíkur þeim fyrri. Liðin skiptust á að vera með boltann, en íslenska liðið skapaði sér þó fleiri færi en fyrir hlé. Andri Fannar Baldursson og Dagur Dan Þórhallsson áttu báðir góð skot snemma í hálfleiknum, en tókst ekki að koma boltanum í netið.

Þá gerðu Orri Steinn Óskarsson og Kolbeinn Þórðarson sig einnig líklega til að ógna marki Tékkana þegar farið var að nálgast lokamínútur leiksins, en inn vildi boltinn ekki.

Íslenska liðið setti allt í sölurnar á lokamínútunum og Valgeir Lunddal var bókstaflega hársbreidd frá því að skora þegar hann fékk algjört dauðafæri á fyrstu mínútu uppbótartíma, en markvörður Tékka fékk boltann í ennið og þaðan fór hann yfir.

Valgeir fékk svo að líta beint rautt spjald undir lok uppbótartímans fyrir að hrinda andstæðingi í jörðina eftir smá læti í teignum, en það hafði engin áhrif á úrslitin og niðurstaðan því markalaust jafntefli og Íslendingar því á heimleið, en Tékkar eru á leið á EM.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira