Innlent

Orðin lenska að taka langan tíma í kjara­samninga

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Aðalsteinn Leifsson tók við starfi ríkissáttasemjara fyrir tveimur árum.
Aðalsteinn Leifsson tók við starfi ríkissáttasemjara fyrir tveimur árum. vísir/vilhelm

Yfir 99 prósent kjara­samninga á Ís­landi renna út áður en nýr samningur er gerður. Þetta er of hátt hlut­fall sem skapar ó­vissu fyrir launa­fólk og at­vinnu­rek­endur að mati ríkis­sátta­semjara. Hann vonar að hægt verði að breyta þessari hefð í náinni fram­tíð.

Kjara­samningar á al­mennum vinnu­markaði verða lausir þann 1. nóvember næst­komandi og á opin­berum markaði í lok mars á næsta ári. Alls eru þetta vel á fjórða hundrað samninga en við­ræður eru þegar hafnar hjá nokkrum stéttum við Sam­tök at­vinnu­lífsins.

Auð­vitað er mjög langt í land; hér virðist nefni­lega lenska fyrir löngum samninga­við­ræðum. Í síðustu kjara­samnings­lotu árið 2018 runnu samningar út í yfir 99 prósent til­fella áður en nýr samningur var gerður.

Rúmur helmingur þessara samninga enduðu í deilu sem ríkis­sátta­semjari varð að koma að.

„Ég held að það sé mjög hátt hlut­fall á alla mæli­kvarða. Og við erum enn þá með ellefu mál hér hjá ríkis­sátta­semjara, þannig að síðasta kjara­samnings­lota er ekki alveg búin þó að þessi nýja sé þegar hafin,“ segir Aðal­steinn Leifs­son ríkis­sátta­semjari.

Þetta er ó­venju­legt þegar litið er til ná­granna­ríkja okkar. Engin að­gengi­leg töl­fræði er til um þessi mál í Norður­löndunum en Aðal­steinn segir dæmið öfugt þar; mun færri mál enda í deilum hjá ríkis­sátta­semjara og þar hefja menn samninga­við­ræður mun fyrr.

„Það geta verið margar á­stæður fyrir því en það er á­kveðin lenska hérna að kjara­samningarnir taka langan tíma. Þannig að í yfir 99 prósent til­vika þá er fyrri samningur runninn út áður en að nýr samningur er undir­ritaður. Og það er gríðar­lega hátt hlut­fall í öllum saman­burði,“ segir Aðal­steinn.

Þetta á­stand er ekki eins og verður best á kosið að hans mati en hann vonar að staðan verði önnur í komandi kjara­samnings­lotu en í þeirri síðustu.

„Ég held að ef að okkur tekst að vinna saman og tryggja að fleiri kjara­samningar náist áður en að fyrri samningur rennur út að þá hafi allir á­góða af því vegna þess að launa­fólk veit þá hvað tekur við og launa­greið­endur hafa þá líka vissu fyrir því hvernig fram­tíðin verður. Það er þessi ó­vissa sem er erfið fyrir alla held ég,“ segir Aðal­steinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×