Fótbolti

Bróðir Pogbas líkir honum við R. Kelly, Harvey Weinstein og Benjamin Mendy

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Paul og Mathias Pogba eftir úrslitaleik HM 2018 þar sem Frakkland sigraði Króatíu, 4-2. Paul skoraði eitt mark í leiknum.
Paul og Mathias Pogba eftir úrslitaleik HM 2018 þar sem Frakkland sigraði Króatíu, 4-2. Paul skoraði eitt mark í leiknum. getty/Shaun Botterill

Mathias Pogba, yngri bróðir Pauls, birti fjölda myndbanda og færslna á samfélagsmiðlum þar sem hann fór vægast sagt ófögrum orðum um bróður sinn. Hann líkti honum meðal annars við þekkta kynferðisafbrotamenn.

Mathias er sem stendur í gæsluvarðhaldi en hann var handtekinn fyrir tilraun til að fjárkúga bróður sinn. Áður en hann fór í steininn bjó hann þannig um hnútana að myndbönd og færslur á samfélagsmiðlum myndu birtast. Í fyrstu færslunni sagði Mathias að alls þrjátíu myndbönd myndu birtast í dag.

Í færslunum sem hafa þegar birst segir hann að Paul sé óheiðarlegur og illa innrættur og enginn sé óhultur þegar hann er annars vegar. Mathias líkir bróður sínum meðal annars við þekkta kynferðisafbrotamenn á borð við R. Kelly, Harvey Weinstein og Benjamin Mendy og þeir, líkt og Paul, hafi komist upp með brot sín í skjóli frægðarinnar.

Mathias greindi enn fremur frá því að Paul hefði leitað til töfralæknis til að fá hann til að halda aftur af Kylian Mbappé í viðureignunum Paris Saint-Germain og Manchester United í sextán úrslitum Meistaradeildar Evrópu 2019. United komst áfram á dramatískan hátt á fleiri mörkum skoruðum á útivelli.

Paul er sem stendur fjarri góðu gamni vegna meiðsla og óvíst er hvort hann geti spilað með Juventus áður en HM hefst 20. nóvember.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.