Umfjöllun: Venesúela-Ísland 0-1 | Ísak tryggði íslenska liðinu sigur af vítapunktinum

Hjörvar Ólafsson skrifar
Ísak Bergmann skoraði mark Íslands í dag.
Ísak Bergmann skoraði mark Íslands í dag. Vísir/Jónína Guðbjörg

Ísland bar sigur úr býtum með einu marki gegn engu þegar liðið mætti Venesúela í vináttulandsleik í fótbolta karla í úthverfi Vínarborgar í Austurríki í dag.

Fyrri hálfleikur var fremur bragðdaufur en íslenska liðið náði ekki að skapa sér nein teljandi færi fyrstu 45 mínúturnar rúmar. Það jákvæða var þó að leikmenn íslenska liðsins voru vel samhæfðir í pressu sinni og náðu í nokkur skipti að vinna boltann á ákjósanlegum stað. Ekki tókst hins vegar að nýta það til þess að koma sér í álitlegar stöður.

Það neikvæða við fyrri hálfleikinn var að Arnór Sigurðsson þurfti að yfirgefa völlinn vegna meiðsla eftir um það bil 20 mínútna leik. Arnór fékk annað högg á sköflunginn og slink á ökklann eftir tæklingu en vonandi að hann verði búinn að hrista þau meiðsli af sér fyrir leikinn gegn Albaníu á þriðjudaginn kemur.

Birkir Bjarnason lék fyrsta klukkutímann tæpan inni á miðjunni. Mynd/KSÍ

Uppspil Íslands gekk svo ekki alveg nógu vel í fyrri hálfleik og tvisvar sinnum missti íslenska liðið á hættulegum stað. 

Annars vegar eftir samspil Davíðs Kristjáns Ólafssonar og Harðar Björgvins Magnússonar vinstra megin í varnarlínunni og svo þegar Rúnar Alex Rúnarsson ætlaði að finna Stefán Teit Þórðarson inni á miðsvæðinu. Leikmenn Venesúela náðu sem betur fer ekki að refsa fyrir þessi mistök.

Meira öryggi var í sendingum leikmanna íslenska liðsins í seinni hálfleik en áfram gekk brösuglega að skapa opin færi. Sendingar voru ónákvæmar þegar á hólminn var komið og sóknaraðgerðirnar báru þar af leiðandi ekki árangur. Löngum sendingum var helst til mikið beitt til þess að freista þess að skapa færi og það gekk ekki sem skyldi.

Það er kannski til marks um það hversu óskilvirkur sóknarleikur Íslands var að fyrsta marktilraun liðsins kom eftir rúmlega klukkutíma leik þegar Mikael Egill Ellertsson lét skotið ríða af frá vítateigshorninu.

Mikael Egill var svo aftur á ferðinni skömmu síðar. Guðlaugur Victor Pálsson, sem lék vel í stöðu hægri bakvarðar, átti þá fyrirgjöf og Jón Dagur Þorsteinsson skallaði boltann á Mikael Egil sem skaut yfir.

Ísak Bermgann setur boltann inn úr vítinu. Mynd/KSÍ

Það var svo á 87. mínútu leiksins sem Ísak Bergmann Jóhannesson sem skoraði sigurmark Íslands úr vítaspyrnu sem Þórir Jóhann Helgason nældi í. Ísland hefur nú spilað níu leiki á þessu ári og gert jafntefli í fimm af þeim, tapað tveimur og haft betur í tveimur.

Það var gott að sjá Alfreð Finnbogason aftur í fremstu víglínu en hann sýndi það nokkrum sinnum leiknum hversu góður hann er að fá boltann í fætur, finna samherja sína og koma þeim í góð hlaup. Aron Einar kom svo með ró, talanda og festu inn í varnarlínuna en hann lék sem miðvörður í leiknum.

Lið Íslands í leiknum var þannig skipað:

Mark: Rúnar Alex Rúnarson

Vörn: Davíð Kristján Ólafsson, Hörður Björgvin Magnússon, Aron Einar Gunnarsson (fyrirliði), Guðlaugur Victor Pálsson

Miðja: Birkir Bjarnason (Aron Elís Þrándarson 58. mín), Hákon Arnar Haraldsson (Ísak Bergman Jóhannesson 58. mín), Stefán Teitur Þórðarson (Þórir Jóhann Helgason 58. mín)

Sókn: Jón Dagur Þorsteinsson (Mikael Neville Anderson 86. mín), Alfreð Finnbogason (Andri Lucas Guðjohnsen 58. mín), Arnór Sigurðsson (Mikael Egill Ellertsson 20. mín)

Af hverju vann Ísland? 

Það var í raun lítið sem skildi liðin að í þessum leik og liðinu fengu hvort um sig fá færi til þess að tryggja sigurinn. Ísak Bergmann var svo ískaldur á vítapunktinum stuttu fyrir leikslok. 

Hverjir sköruðu fram úr?

Aron Einar var öflugur í miðverðinum, Þórir Jóhann átti góða innkomu inn á miðsvæðið og náði í vítaspyrnuna sem leiddi til sigurmarksins. Mikael Egill átti einnig fínan leik á kantinum. Alfreð var svo lunkinn við að koma samherjum sínum í spil. 

Hvað gekk illa?

Sóknarleikurinn var ekki upp á marga fiska í leiknum svona heilt yfir en hann batnaði þó eftir því sem leið á leikinn. Sendingarnar voru margar hverjar ekki nógu nákvæmar og illa gekk að skapa færi. 

Hvað gerist næst?

Ísland mætir Albaníu í Tirana í lokaumferð B-deildar í Þjóðadeildinni á þriðjudaginn kemur. Það kemur í ljós eftir leik Ísraels og Albaníu á laugardaginn kemur hvort að Ísland eigi möguleika á að komast upp í A-deild keppninnar með hagstæðum úrslitum í þeim leik.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira