Elliði stóð að samstöðuleik á Fylkisvelli er liðið mætti KFG í lokaumferð 3. deildar karla um helgina. Miði á leikinn kostaði 2000 krónur og fór allur ágóði í sjóð til styrktar Guðmundi Magnúsi Sigurbjörnssyni, formanni félagsins, sem lék um árabil með liðinu.
Eiginkona Guðmundar var bráðkvödd fyrr í þessum mánuði og rennur féð úr sjóðnum til Guðmundar og tveggja ára dóttur hans.
Alls söfnuðust tvær milljónir og 532 þúsund krónur á leik Elliða en þá safnaðist einnig rúm hálf milljón á leik sem liðið Árbær, sem leikur í 4. deild karla, stóð að fyrr í þessum mánuði. Því söfnuðust alls rúmar þrjár milljónir í styrktarsjóðinn.