Fótbolti

Berg­lind Rós allt í öllu í stórsigri Ör­ebro | Sveinn Aron skoraði glæsilegt mark

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Berglind Rós Ágústsdóttir spilaði einkar vel í dag.
Berglind Rós Ágústsdóttir spilaði einkar vel í dag. Twitter@KIFOrebro

Berglind Rós Ágústsdóttir skoraði og lagði upp í 5-1 sigri Örebro á AIK í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Karla megin skoraði Sveinn Aron Guðjohnsen í Íslendingaslag Elfsborg og Sirius. Markið var einkar glæsilegt.

Berglind Rós var óvænt í stöðu framliggjandi miðjumanns ef marka má liðsuppstillingu Örebro í dag. Virðist það hafa verið frábær ákvörðun þar sem Íslendingurinn var allt í öllu í sóknarleik liðsins.

Hún skoraði eina mark fyrri hálfleiksins og lagði svo upp þriðja mark Örebro þegar rúmur klukkutími var liðin. Gestirnir í AIK minnkuðu muninn þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka en heimaliðið svaraði með því að skora tvo mörk til viðbótar áður en leik lauk, lokatölur 5-1 Örebro í vil. Berglind Rós og stöllur hennar eru í 9. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar með 27 stig að loknum 20 umferðum.

Elfsborg átti ekki í miklum vandræðum með Sirius karla megin. Hákon Rafn Valdimarsson stóð vaktina í marki heimamanna en Óli Valur Ómarsson var í byrjunarliði Sirius. Hann var tekinn af velli fyrir Aron Bjarnason á meðan Sveinn Aron kom inn af bekk Elfsborg í fyrri hálfleik.

Sveinn Aron gulltryggði sigurinn með marki þegar stundarfjórðungur lifði leiks. Um var að ræða þriðja og síðasta mark leiksins, lokatölur 3-0. Markið, sem sjá má hér að neðan, var einkar glæsilegt. Var þetta fimmta mark Sveins Arons á leiktíðinni.

Elfsborg er í 8. sæti með 33 stig að loknum 23 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×