Fótbolti

Þrjú mörk og þrjú rauð er Birkir og félagar héldu toppsætinu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Birkir Bjarnason í leik með Adana Demirspor.
Birkir Bjarnason í leik með Adana Demirspor. BSR Agency/Getty Images

Birkir Bjarnason og félagar hans í Adana Demirspor tróna enn á toppi tyrknesku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu efir 0-3 útisigur gegn Antalyaspor í kvöld.

Ekki nóg með það að Þrjú mörk hafi verið skoruð í leiknum, heldur fóru einnig þrjú rauð spjöld á loft.

Gestirnir í Adana Demirspor tóku forystuna strax á fyrstu mínútu leiksins með marki frá Younes Belhanda.

Ekki batnaði útlitið fyrir heimamenn þegar Soner Aydogdu fékk að líta beint rautt spjald aðeins sjö mínútum síðar og leit því út fyrir að liðið myndi þurfa að spila rúmar 80 mínútur manni færri.

Í stað þess að nýta liðsmuninn misstu gestirnir einnig mann af velli þegar Yaroslav Rakitsky fékk að líta beint rautt spjald stuttu fyrir hálfleik og því var jafnt í liðum þegar gengið var til búningsherbergja í stöðunni 0-1.

Heimamenn fóru þó aftur illa að ráði sínu eftir um klukkutíma leik þegar varamaðurinn Shoya Nakajima var rekinn af velli með beint rautt spjald, en hann hafði komið inn af bekknum aðeins tveimur mínútum fyrr.

Í þetta skipti nýttu gestirnir sér liðsmuninn og bættu tveimur mörkum við áður en yfir lauk. Niðurstaðan því 0-3 sigur Adana Demirspor sem trónir á toppi tyrknesku deildarinnar með 16 stig eftir sjö leiki. Antalyaspor situr hins vegar í 13. sæti deildarinnar með sex stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×