Erlent

Ákærður fyrir að leka ríkisleyndarmálum

Jóhann Hlíðar Harðarson skrifar
Lars Findsen, fyrrverandi forstjóri leyniþjónustu danska hersins.
Lars Findsen, fyrrverandi forstjóri leyniþjónustu danska hersins. Liselotte Sabroe/EPA-EFE

Fyrrverandi forstjóri leyniþjónustu danska hersins hefur verið ákærður fyrir að hafa lekið viðkvæmum ríkisleyndarmálum. Málið er talið einstakt í danskri réttarsögu.

Rekinn og handtekinn

Lars Findsen var vikið frá störfum fyrir tveimur árum vegna gruns um að hafa lekið viðkvæmum ríkisleyndarmálum sem lúta að samstarfi danskra stjórnvalda við bandarísku þjóðaröryggisstofnunina, NSA. Samstarfið snýst um víðtækt eftirlit NSA með dönskum stofnunum og fyrirtækjum og nær aftur til 10. áratugarins.

Hann var handtekinn með látum á Kastrup-flugvelli í desember í fyrra og úrskurðaður í gæsluvarðhald. Honum var síðan sleppt, en rannsókn haldið áfram og hann hefur alla tíð haft réttarstöðu grunaðs. Honum var svo birt ákæra í 6 liðum á föstudag.

Fylgst með hverri hreyfingu Findsens í tvö ár

Ákæran snýst um samtöl Findsens við tvo blaðamenn og fjóra fjölskyldumeðlimi hans. Í þau tvö ár sem rannsóknin hefur staðið yfir hefur verið fylgst með hverri hreyfingu Findsens, og heimili hans og sumarhús hafa verið hleruð.

Rannsókn málsins sætt nokkurri gagnrýni. Fullyrt er að danska leyniþjónustan hafi fundað með fjölda stjórnmálamanna í ferlinu og þar miðlað upplýsingum um Findsen sem í raun komi málinu ekkert við. Til að mynda hafi forstjóri leyniþjónustunnar, Finn Borch Andersen, greint nokkrum stjórnmálaleiðtogum frá kynlífi Findsens í talsverðum smáatriðum, en leyniþjónustan hlustaði á það, eins og allt annað í daglegu lífi Findsens, mánuðum saman.

Mikil áhöld eru um alvarleika málsins í Danmörku og telja sumir lögspekingar sem fjölmiðlar hafa rætt við að ákæran byggi á næfurþunnum grunni.

Danskir fjölmiðlar segja að þetta sé í fyrsta sinn í sögu Danmerkur sem yfirmaður innan leyniþjónustunnar sé ákærður fyrir brot á einni alvarlegustu grein danskra hegningarlaga.

Segir ásakanirnar sturlaðar

Findsen sjálfur hefur ítrekað haldið því fram að ásakanirnar og núna ákærurnar á hendur honum séu hreinlega sturlaðar og hafnar þeim alfarið. Findsen hefur verið lykilmaður í dönsku leyniþjónustunni í tvo áratugi, hann hefur verið forstjóri dönsku leyniþjónustunnar, leyniþjónustu hersins og ráðuneytisstjóri í danska varnarmálaráðuneytinu. Þá hefur hann verið fastur meðlimur í þjóðaröryggisráði ríkisstjórnarinnar.

Líklegt er talið að réttarhöldin yfir Findsen fari fram fyrir luktum dyrum og að ekkert af dómsskjölunum verði gert opinbert almenningi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×