Fótbolti

„Þeir mega alveg vera með boltann mín vegna, því það sést hverjir vinna í lok leiks“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Adam Ægir Pálsson skoraði eitt og lagði upp þrjú í dag.
Adam Ægir Pálsson skoraði eitt og lagði upp þrjú í dag. Vísir/Hulda Margrét

Adam Ægir Pálsson, sóknarmaður Keflvíkinga, lagði upp þrjú mörk og skoraði eitt í 4-8 sigri gegn Fram.

„Þetta er einn skemmtilegasti leikur sem ég hef spilað, sérstaklega afþví að við unnum. Þetta var nokkuð ljóst að þetta var allt fyrir áhorfendur, hvað skoruðum við átta?“

„Mér fannst ég byrja ágætlega, svo dett ég í góðar stöður og næ að leggja upp þrjú mörk og svo næ ég að setja eitt í lokin sem var sætt því ég fékk nokkur færi. Mér leið vel í leiknum og gott að ná að auka á stoðsendingarnar og mörkin.“

Þrátt fyrir að skora átta mörk var Keflavík minna með boltann í leiknum en nýttu sóknirnar sínar vel.

„Við höfum ekkert verið þekktir fyrir að vera með boltann í allt sumar en það hefur oftast gengið vel fyrir okkur. Þeir mega alveg vera með boltann mín vegna, því það sést hverjir vinna í lok leiks.“

Adam kom með beinum hætti að helming marka Keflvíkinga.

„Tvö af þeim voru góðar hornspyrnur, við höfum lagt upp með að skora mikið úr hornspyrnum. Við erum búnir að leggja það upp á æfingasvæðinu og ég náði bara að senda hann fyrir vel í hornspyrnunum. Svo í þriðju stoðsendingunni, var þetta góður bolti og frábær skalli hjá Kian, sem hljóp bara á boltann.“

Adam er í láni frá Víkingum en klárar tímabilið með Keflvíkingum og er nokkuð brattur á framhaldið.

„Framhaldið hjá mér er allavega að klára þessa fimm leiki sem eru eftir hjá Keflavík. Klára það með stæl, reyna skora og leggja eins mikið upp og ég get. Líka að vinna eins marga leiki og hægt er. Svo tekur bara við undirbúningstímabil með Víking, svo veit ég ekkert hvað gerist.“

Að mati Adams hefur sumarið verið sveiflukennt.

„Það er búið að vera upp og niður. Það hafa verið sveiflur hjá okkur en heillt yfir höfum við staðið okkur vel.“

Voru vonbrigði að komast ekki í efri helming deildarinnar? „Já að einhverju leyti, við erum búnir að spila vel í sumar og leiðinlegt að komast ekki í top sex,“ sagði Adam að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×