Fótbolti

Vinícius mun ekki hætta að dansa

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Evrópu- og Spánarmeistarinn elskar að dansa.
Evrópu- og Spánarmeistarinn elskar að dansa. Angel Martinez/Getty Images

Brasilíumaðurinn Vinícius Junior, einn albesti fótboltamaður heims í dag, hefur sagt að hann muni ekki hætta að fagna mörkum sínum að hætti hússins. Vinícius segir að „gleði svarta Brasilíumanna í Evrópu“ sé á bakvið gagnrýnina á fögnum hans.

Umboðsmaðurinn Pedro Brava gagnrýndi fagnaðarlæti hins 22 ára gamla Vinícius nýverið í spænsku sjónvarpi.

„Á Spáni þarftu að virða andstæðinginn og hætta að leika apa,“ sagði Brava og var í kjölfarið ásakaður um kynþáttafordóma. Hann hefur beðist afsökunar og sagt að hann hafi notað orðatiltæki á rangan hátt.

„Sættu þig við það, virtu það. Sama hvað, ég mun ekki hætta,“ var svar Vinícius sem líkt og aðrir Brasilíumenn á undan honum virðist skemmta sér hvað best þegar hann fagnar mörkum.

„Dansinn er ekki aðeins minn. Hann á rætur að rekja til Ronaldinho, Neymar, Lucas Paquetá, Antoine Griezmann, João Félix, brasilísks tónlistarfólks og samba dansara. Dansinn er til að fagna fjölbreytileika heimsins,“ sagði Vinícius um málið.

„Þau segja að hamingja fari í taugarnar á þeim. Hamingja árangursríkra svartra Brasilíumanna í Evrópu virðist pirra þau mun meira,“ sagði framherjinn að endingu en Real Madríd hefur hótað að lögsækja alla þá sem gerast sekir að kynþáttafordómum í garð leikmanna liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×