Auð­veldur sigur hjá Barcelona sem er komið á toppinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lewandowski skoraði tvö í dag.
Lewandowski skoraði tvö í dag. EPA-EFE/ALEJANDRO GARCIA

Barcelona mætti Elche í La Liga, spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta, í dag eftir tap gegn Bayern München í Meistaradeild Evrópu í miðri viku. Lokatölur í dag 3-0 þar sem Robert Lewandowski skoraði tvívegis.

Eftir aðeins 14 mínútna leik fékk Gonzalo Verdu rautt spjald fyrir að brjóta af sér sem aftasti maður. Tuttugu mínútum síðar skoraði Lewandowski eftir sendingu bakvarðarins unga Alejandro Balde.

Memphis Depay gerði svo í raun út um leikinn með marki á 41. mínútu en aftur var Balde með stoðsendinguna. Pedri bætti við þriðja markinu örskömmu síðar en það var dæmt af vegna rangstöðu.

Undir lok fyrri hálfleiks lét Francisco Rodriguez, þjálfari Elche, reka sig af velli og gestirnir í brekku er síðari hálfleikur hófst. Lewandowski skoraði sitt annað mark skömmu eftir að hann hófst og leikurinn svo gott sem búinn. Bæði lið gerðu fjölda skiptinga en engum tókst að komast á blað, lokatölur því 3-0 Börsungum í vil.

Barcelona er nú með 16 stig og komið á topp La Liga en Real Madríd er með 15 stig og á leik til góða.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira