Tónlist

„Þegar ég byrjaði að hægja á mér og vera til fóru hlutirnir fyrst að gerast fyrir alvöru“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Tónlistarmaðurinn snny var að senda frá sér plötuna Water Is Styled Honey.
Tónlistarmaðurinn snny var að senda frá sér plötuna Water Is Styled Honey. Kaja Sigvalda

Tónlistarmaðurinn snny kemur frá New York en hefur verið búsettur hér á landi síðustu ár ásamt íslenskri kærustu sinni og barni. Hann og Arnar Ingi eða Young Nazareth byrjuðu að vinna saman að tónlist í fyrra, lögðu lokahönd á heila plötu saman í byrjun árs og hún var að koma út í dag.

Platan ber nafnið Water Is Styled Honey og þrátt fyrir að snny hafi gefið út tónlist í mörg ár er þetta hans fyrsta breiðskífa. Water Is Styled Honey inniheldur níu lög og fær hann meðan annars söngkonuna RAKEL með sér á eitt þeirra. Blaðamaður tók púlsinn á snny og sköpunargleði hans.

Hvaðan sóttirðu innblástur fyrir plötunni?

Sem heildrænt verk langaði mig að platan stæði fyrir meira en eitthvað eitt. Ég var búinn að vera að vinna að handriti fyrir stuttmynd sem fjallaði um fjölskyldu og tengingu okkar við hugmyndina um tíma. Ég byrjaði að vinna að plötunni sem tónlist fyrir kvikmyndinni sem ég var með í huganum.

Ég fékk bara að hitta móðurömmu mína en fékk aldrei tækifæri til að hitta aðrar ömmur mínar og afa vegna þess að þau annað hvort létust áður en ég fæddist eða áður en ég fékk tækifæri til að heimsækja þau, þar sem við bjuggum í tveimur mismunandi heimsálfum. Ég hef alltaf velt fyrir mér hvernig samræður við þau hefðu verið og hvaða ráð þau hefðu gefið mér eða hvaða sögur þau hefðu sagt mér.

Þessi löngun í samband við þau var undirliggjandi innblástur fyrir lagasmíðina. 

Ég ímyndaði mér að ég væri að skrifa frá sjónarhorni afa og ömmu og velti fyrir mér hvernig samræður við þau myndu vera í dag eða hvernig þau myndu líta á ákveðin málefni. 

Mig langaði mikið til að tengja saman fortíð, samtíð og framtíð. Boyhood, kvikmynd Richard Linklaters, var líka mikill innblástur fyrir mér. Staðreyndin að hann skaut hana yfir ellefu ára tímabil til að ná fram breytingum karakteranna á raunsæjan hátt er svo djúpstæð skuldbinding gagnvart verkefninu. Þessi skuldbinding hvatti mig til að tengja mig algjörlega við hugmyndina og rómantísera um tíma á minn eigin hátt.

Hvernig fer lag frá því að vera hugmynd yfir í að verða fullklárað lag hjá þér?

Það er allur gangur á því hjá mér. Vanalega er ég með hugmynd að texta eða stundum einfaldlega bara titil á lagi og vinn mig út frá því. Ég er mjög sjónrænn í hugsun þannig að oft sé ég fyrir mér eitthvað atriði og ímynda mér hvaða tónlist atriðið þarfnast. Textar eru oftast upphafspunkturinn hjá mér en lögin geta líka byrjað á melódíu eða trommum.

Það er allur gangur á því hvernig lög verða til hjá snny.Kaja Sigvalda

Hvernig hefur gengið að vinna plötuna?

Mér líður eins og undirmeðvitundin mín hafi verið að vinna að þessari plötu í mikið lengri tíma en ég áttaði mig á. Þegar ég kom fyrst til Íslands þá lá mér svo mikið á að skapa og deila því, sem er mjög ólíkt mínu vanalega sköpunarferli. 

Í gegnum fyrstu mánuðina tókst mér að hægja á mér og bara vera til og þegar ég byrjaði að gera það fóru hlutirnir fyrst að gerast fyrir alvöru.

Ég vann mikið með Arnari Inga, Young Nazareth, við gerð plötunnar en hann er aðal pródúser verkefnisins. 

Markmiðið mitt var að tryggja að hvert og eitt lag ýtti mér í átt sem ég hafði ekki farið í áður.

 Það þýddi að stundum þurftum við að byrja á lagi alveg upp á aftur og aftur en oftast vissum við hvort við hefðum eitthvað sem virkaði á fyrstu 15-20 mínútunum við að vinna lagið.

Hvernig er tilfinningin að senda frá sér heila plötu?

Þetta er fyrsta platan mín og ég er búinn að upplifa einhverja hærri skynjun á andlegu sjónarhorni, þar sem mér líður eins og ég sé minna tengdur verkefninu sem einhverju hlutlægu og meira tengdur því sem einhvers konar symbólisma fyrir nýjan kafla fyrir mig og mína sköpun, sem er mjög fullnægjandi.

Kaja Sigvalda

Er erfitt að senda frá sér svona persónulega listsköpun?

Ég held að fyrir mig sé erfiðara að tala um það sem ég sem frekar en að semja það.

Ég elska list sem er opin fyrir túlkun og ég sjálfur er stöðugt að túlka listina mína á marga ólíka vegu.

Í dag þýðir platan eitthvað ákveðið fyrir mér en á morgun gæti það kallað fram aðra tilfinningu sem er allt í góðu, því að þannig skapaði ég hana. Hún kom frá því að ég var að tjá mig á fleiri en eina vegu og var með milljón litlar hugmyndir í gangi við gerð hennar.

Hvað er á döfinni?

Ég spila í Vikunni með Gísla Marteini í kvöld og spila á Airwaves þriðja nóvember. Ég er einnig að skipuleggja tónleikaferðalag fljótlega.

Næsta stóra verkefni hjá mér er svo að klára þessa mynd sem ég hef verið að vinna að. 

Það væri magnað að sjá það gerast en myndin er svört kómedía um ungt par sem lendir í áfalli þegar að konan greinist með krabbamein og á einungis nokkra mánuði eftir. Parið hafði langað að stofna fjölskyldu og eignast börn en þar sem þau vita að það er ekki möguleiki ákveða þau að ættleiða. 

Kærastan vill ekki skilja makann sinn eftir til að ala upp barn svo þau ákveða að ættleiða gamlan mann. 

Fyrsti helmingur myndarinnar fylgir eftir ferðalagi þeirra við að ættleiða þennan mann og seinni helmingurinn rannsakar sambandið á milli þeirra ungu og hins gamla.


Tengdar fréttir

Sambandsslit og nostalgía

Tónlistarmaðurinn snny var að senda frá sér nýtt lag sem ber nafnið Flying In The Dark. Snny er frá Bandaríkjunum en hefur búið á Íslandi með íslensku kærustu sinni og barni síðustu ár.

Röyksopp á Airwaves 2022

Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves fer fram með pomp og prakt 3. - 5. nóvember næstkomandi. Fjölbreytt tónlistaratriði koma fram í ár en hátíðin tilkynnti rétt í þessu 23 atriði til viðbótar við dagskrána.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×