Innlent

618 börn bíða eftir sálfræðiþjónustu hjá HH

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Umboðsmaður barna heldur utan um tölur yfir fjölda barna sem bíða eftir nauðsynlegri þjónustu, líkt og sálfræðiþjónustu.
Umboðsmaður barna heldur utan um tölur yfir fjölda barna sem bíða eftir nauðsynlegri þjónustu, líkt og sálfræðiþjónustu. Vísir/Vilhelm

Þessa stundina bíða 618 börn eftir sálfræðiþjónustu hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þetta kemur fram í nýrri samantekt sem Umboðsmaður barna hefur ráðist í um bið barna eftir nauðsynlegri þjónustu. Ráðist var í sams konar samantekt í árslok 2021 og síðan voru nýjustu upplýsingar birtar í gær frá sömu aðilum en auk þeirra voru birtar upplýsingar frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Heilsuskóla barnaspítalans og þjónustu talmeinafræðinga.

Af þeim 618 börnum á höfuðborgarsvæðinu sem bíða eftir sálfræðiþjónustu þá hefur rúmur helmingur beðið í meira en 180 daga. Salvör Nordal er umboðsmaður barna.

„Þetta er auðvitað ansi löng og mikil bið því þetta er auðvitað fyrsta stigs þjónusta og mikilvægt að börn sem finna þörf á að leita til sálfræðings geti nálgast slíka þjónustu sem allra fyrst.“

Þegar bornar eru saman upplýsingar frá nýjustu upplýsingaöflun annars vegar og upplýsingum frá lok árs 2021 hins vegar sést að meðalbiðtími eftir þjónustu á göngudeild, transteymi og átröskunarteymi Barna- og unglingageðdeildar LSH hefur styst. 67 börn bíða nú eftir því að komast inná göngudeildina en þar af hafa 39 beðið í meira en þrjá mánuði.

Alls bíða nú 42 börn eftir því að komast að hjá Transteymi BUGL og hafa 30 þeirra beðið í meira en þrjá mánuði. Nú bíða tólf börn eftir því að komast að hjá átröskunarteyminu. Þrátt fyrir að þetta séu langir biðlistar þá hefur staðan skánað síðan hún var sem verst í lok síðasta árs í kórónuveirufaraldrinum.

„Það er auðvitað mjög ánægjulegt að sjá það. Það er auðvitað tilgangurinn með upplýsingaöfluninni að sjá hvernig hlutirnir eru að þróast; hvort við séum á réttri leið eða hvort biðin sé að lengjast.“

Salvör segir að snemmtæk íhlutun sé börnum fyrir bestu.

„Á meðan börnin bíða þá eykst vandinn þannig að og þess vegna er þetta svo gríðarlega mikilvægt að við getum boðið upp á þá þjónustu sem þau þurfa þegar þau þurfa á henni að halda,“ segir Salvör Nordal.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×