Innlent

Umboðsmaður safnar og birtir upplýsingar um biðtíma barna eftir þjónustu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
„Það er von umboðsmanns barna að birting upplýsinganna muni varpa ljósi á raunverulega stöðu barna í íslensku samfélagi og verði stjórnvöldum hvati til aðgerða og úrbóta.“
„Það er von umboðsmanns barna að birting upplýsinganna muni varpa ljósi á raunverulega stöðu barna í íslensku samfélagi og verði stjórnvöldum hvati til aðgerða og úrbóta.“

Eins og stendur bíða 738 börn á aldrinum 6 til 18 ára eftir greiningu hjá Þroska- og hegðunarmiðstöð. Meðal biðtími eru 12 til 14 mánuðir en 544 börn hafa beðið lengur en þrjá mánuði eftir þjónustu.

Þetta er meðal þess sem kemur fram á nýrri vefsíðu Umboðsmanns barna, þar sem safnað verður saman upplýsingum um fjölda barna sem bíður eftir þjónustu hjá ýmsum aðilum. Tilgangurinn er að varpa ljósi á stöðu barna í samfélaginu.

„Það er von umboðsmanns barna að birting upplýsinganna muni varpa ljósi á raunverulega stöðu barna í íslensku samfélagi og verði stjórnvöldum hvati til aðgerða og úrbóta. Söfnun og birting upplýsinganna er jafnframt liður í því hlutverki umboðsmanns barna að stuðla að því að Barnasáttmálinn sé virtur og innleiddur að fullu,“ segir á vef Umboðsmanns.

Samkvæmt vefsíðunni bíða 226 börn eftir þjónustu á yngri barnasviði Ráðgjafar- og greiningarstöðvar ríkisins og 100 eftir þjónustu á eldri barnasviði. Biðtíminn er 12 til 19 mánuðir en nær öll börnin hafa beðið lengur en þrjá mánuði eftir þjónustu.

Á síðunni er meðal annars að finna upplýsingar um stöðuna á biðlistum Barna- og unglingageðdeildar Landspítala. Þar bíða nú 77 börn eftir þjónustu á göngudeildum A og B, þar sem meðalbiðtíminn eru 7,7 mánuðir. 59 börn hafa beðið lengur en þrjá mánuði.

Þá eru 39 börn á biðlista eftir þjónustu transteymis BUGL en meðalbiðtíminn hjá teyminu eru 11 mánuðir. 27 börn hafa beðið lengur en þrjá mánuði. Sautján eru á bið hjá átröskunarteymi BUGL og níu hafa beðið lengur en þrjá mánuði en meðalbiðtíminn eru 5,3 mánuðir.

Þrjátíu og átta börn bíða eftir að komast í meðferð hjá Barnahúsi, þar sem biðtími eftir þjónustu veltur á alvarleika brota. Meðalbiðtími eftir þjónustu eru 49 til 202 dagar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×