Fótbolti

Messi, Mbappe og Neymar skoruðu allir í sigri PSG

Atli Arason skrifar
Messi og Mbappe skoruðu báðir gegn Maccabi Haifa.
Messi og Mbappe skoruðu báðir gegn Maccabi Haifa. Getty Images

Framlína PSG var öll á skotskónum í sigri PSG á Maccabi Haifa á meðan Benfica gerði sér lítið fyrir og sigraði Juventus á útivelli. Napoli og Real Madrid unnu einnig sigra á sínum mótherjum í Meistaradeild Evrópu í kvöld.

Af öllum óvörum kom Tjarron Chery, leikmaður Maccabi Hafia, liði sínu yfir gegn PSG á 24. mínútu leiksins áður en Messi, Mbappe og síðan Neymar skoruðu fyrir PSG til að tryggja Frakklandsmeisturunum 1-3 sigur.

Á sama tíma fór fram leikur Juventus og Benfica þar sem Benfica vann óvæntan 1-2 útisigur á Juventus þar sem Joao Mario og David Neres skoruðu mörk Benfica eftir að Arkadiusz Milik hafði komið heimamönnum yfir á fjórðu mínútu leiksins.

PSG og Benfica eru saman á toppi H-riðils með sex stig en Juventus og Maccabi Haifa eru án stiga.

Í Skotlandi tapaði Rangers stórt gegn Napoli á heimavelli, eftir að hafa orðið manni færri á 55. mínútu.

James Sands, leikmaður Rangers, fékk þá tvö gul spjöld á aðeins tveggja mínútna kafla og Napoli gekk á lagið. Matteo Politano, Giacomo Raspadori og Tanguy Ndombele skoruðu mörk Napoli eftir að þeir urðu einum leikmanni fleiri.

Napoli er í efsta sæti A-riðls með sex stig en Rangers er í fjórða og síðasta sæti án stiga eftir tvær umferðir.

Þá vann Real Madrid 2-0 sigur á RB Leipzig þökk sé mörkum frá Federico Valvarde og Marco Asensio á síðustu tíu mínútum leiksins. Real er í efsta sæti F-riðls með 6 stig á meðan Leipzig er á botninum án stiga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×