Innlent

For­eldrar ekki að missa móðinn

Árni Sæberg og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Ingi Bekk var meðal þeirra foreldra sem mættu með börn sín á palla ráðhússins í dag.
Ingi Bekk var meðal þeirra foreldra sem mættu með börn sín á palla ráðhússins í dag. Stöð 2

Í dag komu foreldrar barna, sem ekki fá pláss á leikskólum Reykjavíkurborgar, með börn sín á palla ráðhússins og mótmæltu ástandinu í leikskólamálum. Öllu færri mættu í dag en á fyrri tvö mótmælin sem haldin hafa verið. Foreldrar þvertaka þó fyrir að þeir séu að missa móðinn.

Fyrsti borgarstjórnarfundur eftir sumarfrí borgarstjórnar var haldinn í dag og var friður til fundarhalda rofinn af börnum sem ættu að hafa verið á leikskóla. Það hefur gerst tvisvar áður en í þetta skipti voru færri börn mætt ásamt foreldrum sínum.

Borgarfulltrúar meirihlutans segja að þær tillögur sem kynntar voru í ágúst, til að stemma stigu við leikskólavandanum, séu í vinnslu og gangi raunar vel.

„Það er að saxast á“

„Ég get sagt þér að það eru 200 pláss laus. Þá spyr maður sig, það eru 200 pláss laus en það vantar pláss. 200 pláss eru laus vegna þess að við erum ekki komin með alla vissu um það hverjir ætla að taka pláss og svo er það mönnunarvandi. Þannig það er að saxast á,“ segir Árelía Eydís Guðmundsdóttir, formaður skóla- og frístundaráðs, í samtali við fréttastofu.

Samkvæmt nýjustu tölum frá skóla- og frístundasviði á eftir að ráða í 122 stöðugildi á leikskólum borgarinnar. Mönnum hafi þó ekki áhrif á inntöku nema 45 leikskólabarna.

Öllu fleiri börn bíða í frístundamálunum, þar vantar pláss fyrir 936 grunnskólabörn á frístundaheimili eða sambærilegu úrræði. Því er ljóst að vandinn einskorðast ekki við leikskólana.

Kennir góða veðrinu um

Sem áður segir mættu færri mótmælendur á mótmælin í dag en þegar álíka mótmæli hafa verið haldin undanfarið. En þýðir það að foreldrar séu að missa dampinn eða vandinn sé að leysast?

„Alls ekki,“ segir Ingi Bekk, faðir og mótmælandi í ráðhúsinu. „Ég kenni nú góða veðrinu um til að byrja með en ég veit að það er fullt af foreldrum sem á í þessum vanda. Ef við segjum sem svo að það séu 300 börn á þessum biðlistum þá eru 600 foreldrar sem eiga í þessum vanda. Og við erum ekki að missa móðinn, alls ekki. Heldur algjörlega í hina áttina og ætlum okkur að fjölmenna hérna á pallanna í nánustu framtíð,“ segir Ingi.

Rætt var við þau Árelíu og Inga í lok innslagsins hér að neðan:


Tengdar fréttir

Lang­þreyttir for­eldrar leik­skóla­barna í Reykja­vík

Til þeirra sem málið varðar. Ég er foreldri tveggja barna á leikskólaaldri. Yngri sonur minn er að hefja skólagöngu sína í leikskóla hjá Reykjavíkurborg núna á föstudaginn, hann er rúmlega tveggja ára. Eldri sonur minn er að hefja síðasta vetur sinn á leikskólanum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×