Innlent

Ný kirkja risin í Gríms­ey

Árni Sæberg skrifar
Turni nýju kirkjunnar í Grímsey var komið fyrir á dögunum.
Turni nýju kirkjunnar í Grímsey var komið fyrir á dögunum. Aðsend/Inga Lóa Guðjónsdóttir

Á dögunum var ný Miðgarðskirkja í Grímsey orðin fokheld og turninum hafði verið komið fyrir. Í dag kom varðskipið Þór í eyna með stuðlabergsskífur sem fara á þak nýju kirkjunnar.

Í fréttatilkynningu frá Miðgarðskirkju segir að byggingarvinna í Grímsey, nyrstu byggð Íslands, krefjist mun meiri fyrirhafnar og kostnaðar en í landi.

Til eyjarinnar hafi þurft að flytja allt byggingarefni sjóleiðina og sömuleiðis jarðefni, svo sem möl og sand. Þar lagði Landhelgisgæslan kirkjunni lið með því að flytja timbur og grjót í eyna fyrr í sumar og í morgun flutti hún sextán bretti af stuðlabergsskífum.

Í tilkynningu segir að kirkjan sé nú orðin fokheld og næstu dagar fari í að koma granítskífum fyrir á þaki hennar og að klæða hana að utan með lerki. Kirkjan verði svo innréttuð í vetur og næsta vor gengið frá umhverfi hennar. Jarðrask hafi orðið meira en búis var við vegna fornleifafundar og bleytu í sumar.

Fyrirhugað sé að vígja nýja Miðgarðakirkju sumarið 2023, en nú sé unnið að því að ljúka fjármögnun hennar.

Ár frá brunanum

Þann 21. september næstkomandi er ár liðið frá bruna hinnar gömlu Miðgarðakirkju.

Í tilkynningu segir að þann dag muni Grímseyingar og gestir koma saman í nýju kirkjunni og minnast þeirrar gömlu og gleðjast yfir vel unnu verki. Friðrik Ómar Hjörleifsson tónlistarmaður, er meðal þeirra sem fram munu koma, en húsið er auk helgihalds, sérstaklega hannað til tónlistar- og menningarviðburða.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×