Erlent

„Feiti Leonard“ slapp úr stofu­fangelsi

Bjarki Sigurðsson skrifar
„Feiti Leonard“ er nú á flótta frá lögreglunni.
„Feiti Leonard“ er nú á flótta frá lögreglunni.

Leonard Glenn Francis, oftast kallaður, „Feiti Leonard“, slapp úr stofufangelsi í dag eftir að hann skar á ökklaband sitt. Dómsuppkvaðning í máli hans var á dagskrá eftir þrjár vikur.

Árið 2015 játaði Leonard að hafa mútað meðlimum bandaríska sjóhersins og fengið afhent leynileg gögn í staðinn. Málið vakti mikla athygli og úr varð mikið hneyksli innan hersins.

Málið hefur verið í langan tíma innan dómstóla Bandaríkjanna enda frekar umfangsmikið, fjórir hermenn hafa viðurkennt að hafa átt aðild að málinu og 28 aðrir starfsmenn gert slíkt hið sama, til dæmis verktakar og fleiri. Því er ekki enn búið að dæma Leonard sjö árum eftir að hann játaði.

Lögreglumenn fengu tilkynningu í dag um að það væru einhver vandræði með ökklaband hans og þegar þeir komu á staðinn var enginn í húsinu.

Verið er að rannsaka málið en nágrannar hafa sagt að fjöldi flutningabíla hafi verið á svæðinu síðustu vikur. Talið er að þær ferðir hafi eitthvað með flóttann að gera.

Fyrir nokkru síðan greindist Leonard með krabbamein í nýrum og því hafði hann verið í stofufangelsi í staðinn fyrir venjulegu fangelsi. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×