Fótbolti

Mbappé um Pogba-málið: „Orð gegn orði“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Paul Pogba og Kylian Mbappé eru burðarstólpar í franska landsliðinu sem á titil að verja á HM í Katar.
Paul Pogba og Kylian Mbappé eru burðarstólpar í franska landsliðinu sem á titil að verja á HM í Katar. getty/Laurence Griffiths

Kylian Mbappé segist treysta Paul Pogba þrátt fyrir orðróm þess efnis að hann hafi leitað til töfralæknis til að leggja bölvun á félaga í franska landsliðinu.

Deilur bræðranna Pauls og Mathias Pogba hafa verið mikið í fréttunum að undanförnu. Paul hefur greint frá því að ýmsir aðilar hafi reynt að fjárkúga hann, meðal annars Mathias. Hann hefur hótað því að afhjúpa viðkvæmar upplýsingar um Paul og hefur meðal annars greint frá því að Paul hafi fengið töfralækni til að leggja bölvun á Mbappé. Paul gekkst við því að hafa leitað til töfralæknis en það hafi verið gert til að hjálpa góðgerðarsamtökum í Afríku.

Á blaðamannafundi í gær sagðist Mbappé hafa verið í sambandi við Pogba vegna þessa stórundarlega máls.

„Ég treysti samherja mínum,“ sagði Mbappé á blaðamannafundi í gær. „Hann hafði samband og sagði sína hlið á málinu. Núna er þetta orð gegn orði. Ég treysti samherja mínum þó ekki nema vegna landsliðsins. Framundan er stórt mót og vandamálin eru nú þegar nokkur. Þetta er ekki tíminn til að bæta fleirum við.“ 

Mbappé vísaði þarna til HM í Katar þar sem Frakkar eiga titil að verja. Pogba og Mbappé voru báðir í lykilhlutverki þegar Frakkland vann HM 2018 og skoruðu meðal annars báðir í úrslitaleiknum gegn Króatíu.

Óvíst er hvort Pogba verði með á HM en hann er nýbúinn í aðgerð á hné. Hann gekk í raðir Juventus frá Manchester United á nýjan leik í sumar.

Mbappé og félagar hans í Paris Saint-Germain mæta Juventus í fyrsta leik sínum í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19:00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.