Fótbolti

Ömurlegt víti á ögurstundu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Pulskamp varði spyrnu Hernández í lok leiks.
Pulskamp varði spyrnu Hernández í lok leiks.

Mexíkóinn Javier Hernández var bæði hetja og skúrkur Los Angeles Galaxy í bandarísku MLS-deildinni í fótbolta í nótt. Hann klúðraði vítaspyrnu í 2-2 jafntefli við Sporting Kansas City.

Hernández kom Galaxy yfir snemma leiks en mörk frá Johnny Russell og Felipe Hernández fyrir Kansas sneru taflinu við þegar um stundarfjórðungur var eftir.

Sá mexíkóski var ekki hættur þar sem Galaxy fékk vítaspyrnu á 88. mínútu. Hernández steig á punktinn og jafnaði leikinn með sínu öðru marki.

Los Angeles fékk þá aðra vítaspyrnu djúpt í uppbótartíma og aftur steig Hernández á punktinn, með sigurinn í höndunum. Hann tók hins vegar þá ákvörðun að vippa boltanum úr spyrnunni, og fór hann beint í hendur markvarðar andstæðingsins.

Sjón er sögu ríkari en spyrnuna má sjá að ofan.

Leiknum lauk 2-2. Galaxy er með 39 stig í áttunda sæti Vesturdeildarinnar en efstu sjö liðin fara í úrslitakeppni. Aðeins þrjú stig eru upp í úrslitakeppnissæti og á liðið fína möguleika þar sem það á leik inni á liðin fyrir ofan sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×