Fótbolti

Sjáðu mörkin úr stórsigri Íslands

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir kom íslenska liðinu á bragðið með tveimur mörkum í upphafi leiks.
Sara Björk Gunnarsdóttir kom íslenska liðinu á bragðið með tveimur mörkum í upphafi leiks. Vísir/Hulda Margrét

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu vann afar öruggan 6-0 sigur er liðið tók á móti Hvít-Rússum í undankeppni HM í kvöld. Sigurinn lyfti íslenska liðinu á topp C-riðils og framundan er hreinn úrslitaleikur gegn Hollendingum um beint sæti á HM næstkomandi þriðjudag.

Íslensku stelpurnar réðu lögum og lofum frá upphafi til enda, en það var landsliðsfyrirliðinn sjálfur, Sara Björk Gunnarsdóttir, sem kom liðinu í forystu með marki af vítapunktinum á 12. mínútu eftir að Amanda Andradóttir hafði fiskað spyrnuna.

Sara var svo aftur á ferðinni tveimur mínútum síðar þegar hún skallaði fyrirgjöf Sveindísar Jane Jónsdóttur í netið og staðan því orðin 2-0 áður en stundarfjórðungur var liðinn af leiknum.

Ekki tókst íslenska liðinu að bæta þriðja markinu við í fyrri hálfleik, en Dagný Brynjarsdóttir sá til þess að áhorfendur þurftu ekki að bíða lengi eftir því eftir hléið.

Glódís Perla Viggósdóttir skallaði svo hornspyrnu Amöndu Andradóttur í netið þegar um tuttugu mínútur voru til leiksloka og staðan því orðin 4-0 og enn nóg eftir af leiknum.

4-0 varð svo 5-0 tíu mínútum síðar þegar Sveindís Jane Jónsdóttir lék sér að varnarmönnum gestanna og kom boltanum fyrir markið. Þar var mætt áðurnefnd Dagný Brynjarsdóttir og hún skoraði sitt annað mark í leiknum og sitt 37. landsliðsmark á ferlinum. Dagný er því orðin næst markahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi ásamt Hólmfríði Magnúsdóttur.

Það var svo Selma Sól Magnúsdóttir sem rak smiðshöggið á stórsigur Íslands þegar hún skoraði sjötta mark liðsins á 82. mínútu. Lokatölur 6-0 og íslensku stelpurnar fara fullar sjálfstrausts inn í úrslitaleikinn gegn Hollendingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×