Lífið

Hildur Guðna orðuð við Óskars­verð­laun

Bjarki Sigurðsson skrifar
Hildur Guðnadóttir með Óskarsstyttuna sem hún vann fyrir myndina Joker. 
Hildur Guðnadóttir með Óskarsstyttuna sem hún vann fyrir myndina Joker.  Getty

Kvikmyndin Tár var í dag frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum. Cate Blanchett fer með aðalhlutverk myndarinnar og samdi Hildur Guðnadóttir tónlistina. Hildur er sögð líkleg til að vinna Óskarsverðlaun fyrir myndina.

Kvikmyndinin Tár er leikstýrð af Todd Field og fjallar um tónskáld að nafni Lydia Tár. Stórleikkonan Cate Blanchett fer með hlutverk hennar en með önnur hlutverk fara meðal annars Noémie Merlant, Nina Hoss og Julian Glover.

Myndin var frumsýnd í kvöld í Feneyjum og hlutu aðstandendur myndarinnar standandi lófatak frá gestum hátíðarinnar eftir sýninguna. Augu flestra voru á Blanchett og þykir leikur hennar í myndinni afar góður. Talið er að hún gæti unnið sín þriðju Óskarsverðlaun fyrir leik sinn en hún vann verðlaunin fyrir besta leik í aukahlutverki fyrir myndirnar The Aviator árið 2005 og Blue Jasmine árið 2014.

Tónlistin í myndinni þykir líka afar góð og telur miðillinn Hollywood Reporter að „auðvitað“ sé líklegt að Hildur Guðnadóttir vinni til verðlauna á Óskarsverðlaunahátíðinni fyrir hana. Hildur hlaut Óskarinn árið 2019 fyrir tónlistina í Joker.

Önnur kvikmynd sem Hildur samdi tónlistina fyrir, Women Talking, verður frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Telluride á morgun. Mikil eftirvænting er fyrir myndinni og telur YouTube-rásin The Oscar Expert, þrátt fyrir að myndin hafi ekki verið sýnd, að Hildur gæti fengið Óskarinn fyrir hana líka.

Stefnt er á að halda Óskarsverðlaunahátíðina þann 12. mars á næsta ári.


Tengdar fréttir

Hildur vinnur Gram­my-verð­laun fyrir Jókerinn

Hildur Guðnadóttir, tónskáld, vann í dag Grammy-verðlaun fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Joker. Hildur vann Óskarsverðlaun fyrir tónlistina í fyrra og Grammy-verðlaun í sama flokki í fyrra fyrir tónlist sína í þáttunum Chernobyl.

Hildur Guðnadóttir vann Óskarsverðlaun

Hildur er fyrsti Íslendingurinn sem vinnur Óskarinn og fjórða konan frá upphafi sem vinnur verðlaunin í flokki frumsamdrar kvikmyndatónlistar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×