Fótbolti

Drullusama um umræðuna um Elínu Mettu

Sindri Sverrisson skrifar
Elín Metta Jensen raðaði inn mörkum fyrir Ísland í síðustu undankeppni, fyrir EM í Englandi, en hefur ekki náð sér á strik í sumar.
Elín Metta Jensen raðaði inn mörkum fyrir Ísland í síðustu undankeppni, fyrir EM í Englandi, en hefur ekki náð sér á strik í sumar. VÍSIR/VILHELM

Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari segist treysta öllum sínum leikmönnum til að vera í byrjunarliðinu gegn Hvíta-Rússlandi og Hollandi í leikjunum sem skera úr um hvort Ísland komist beint á HM kvenna í fótbolta.

Allir leikmenn íslenska hópsins eru við hestaheilsu og tilbúnir að spila við Hvít-Rússa á Laugardalsvelli á morgun.

Þorsteinn var spurður út í umræðuna um Elínu Mettu Jensen, á blaðamannafundi í dag, en valið á henni í landsliðshópinn hefur verið gagnrýnt í ljósi frammistöðu hennar og minni spilamennsku en áður hjá Val í sumar.

Elín Metta var markahæsti leikmaður Íslands í síðustu undankeppni stórmóts, þegar Ísland tryggði sig inn á EM í Englandi, en hefur ekki sýnt sitt rétta andlit á knattspyrnuvellinum á þessu ári.

Þorsteinn er engu að síður sannfærður um að valið á þessum 27 ára gamla framherja hafi verið rétt.

„Ég er búinn að svara þessari spurningu og sagðist treysta öllum leikmönnum til þess að spila. Umræða um hana er bara einhver umræða sem á sér stað úti í bæ og fólk verður bara að svara fyrir það sjálft og segja sína skoðun á því. Mér er drullusama og þetta skiptir mig engu máli. Ég hef trú á þessum hópi sem ég vel. Ekkert annað,“ sagði Þorsteinn.

Klippa: Þorsteinn um valið á Elínu Mettu

Þorsteinn sat fyrir svörum á blaðamannafundi í dag ásamt Söru Björk Gunnarsdóttur landsliðsfyrirliða. Ísland mætir Hvíta-Rússlandi á morgun á Laugardalsvelli klukkan 17.30 og heldur svo til Hollands í sannkallaðan úrslitaleik um sæti á HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×