Innlent

Eldur kom upp á veitinga­stað í Mos­fells­bæ

Atli Ísleifsson skrifar
Frá vettvangi við Háholt 14 í Mosfellsbæ í nótt.
Frá vettvangi við Háholt 14 í Mosfellsbæ í nótt. Slökkvilið

Eldur kom upp á veitingastað í verslunarkjarnanum við Háholt 14 í Mosfellsbæ í nótt.

Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins barst tilkynning klukkan 3:40 í nótt og tók það rúman klukkutíma að slökkva eldinn og reykræsta.

„Við byrjuðum á því að senda eina stöð á staðinn en þegar við komum sáum við að það var mikill reykur og sót og augljóslega talsverður eldur. Þetta er líka stórt hús svo við ákváðum að senda allar stöðvar á staðinn,“ segir varðstjóri í samtali við fréttastofu.

Í færslu á Facebook-síðu slökkviliðsins segir að dælubílar hafi sex sinnum farið í útköll síðasta sólarhringinn og voru sjúkraflutningar 97 talsins.

Domino's segir á Facebook-síðu sinni að sökum eldsvoðans, sem varð nærri húsnæði Domino's í Mosfellsbæ, muni staðurinn opna síðar en vanalega í dag. „Unnið er að lagfæringum og stefnt er að opnun seinnipart dags. Lokað verður fyrir heimsendingar í Mosfellsbæ í dag vegna þessa.“

Fréttin var síðast uppfærð klukkan 12.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×