Fótbolti

Balotelli yfirgefur Birki og félaga

Valur Páll Eiríksson skrifar
Balotelli var öflugur í Tyrklandi á síðustu leiktíð.
Balotelli var öflugur í Tyrklandi á síðustu leiktíð. Elif Ozturk Ozgoncu/Anadolu Agency via Getty Images

Mario Balotelli verður ekki áfram liðsfélagi Birkis Bjarnasonar hjá Adana Demirspor í Tyrklandi. Hann er á leið til Sviss.

Ferillinn hefur legið töluvert niður á við hjá hinum 32 ára gamla Balotelli sem var álitinn eitt mesta efni heims á sínum tíma. Hann vann þrjá ítalska meistaratitla með Inter fyrir tvítugt og var þá hluti af liði Manchester City sem vann ensku deildina árið 2012.

City gafst upp á honum árið 2013, þegar hann var 23 ára, en þá hafði dregið undan frammistöðu hans innan vallar og umdeild atvik utan vallar ollu einnig vandræðum. Aðeins ári fyrr hafði hann verið stór hluti af árangri Ítala sem hlutu silfur á EM 2012.

Hann átti eitt og hálft gott ár hjá AC Milan en fann sig aldrei hjá Liverpool sem hann samdi við sumarið 2014, þar sem hann skoraði aðeins eitt mark í 16 deildarleikjum.

Hann hefur flakkað töluvert um síðan og á flestum stöðum staðið sig ágætlega í markaskorun. Hann hefur leikið með AC Milan, Nice og Marseille í Frakklandi, Brescia og Monza á Ítalíu og síðast Adana Demirspor í Tyrklandi hvar hann skoraði 18 deildarmörk í 33 leikjum á síðustu leiktíð, þar af fimm í síðasta leik tímabilsins.

Hann er nú á leið til Sviss hvar hann mun leika með FC Sion. Liðið lenti í sjöunda sæti í svissnesku deildinni í fyrra og vonast eflaust eftir að Balotelli geti hjálpað liðinu að ná betri árangri í ár.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.