Hér má sjá lögregluna og unga sjálfstæðismenn fyrir utan sendiráð Rússlands við Garðastræti.Vísir
Sérsveit ríkislögreglustjóra og lögreglumenn stöðvuðu unga sjálfstæðismenn sem hugðust mótmæla stríði Rússa í Úkraínu við rússneska sendiráðið í kvöld. Ungmennin ætluðu að mála úkraínska fánann á gangstéttina við sendiráðið en voru stöðvuð við verkið og eftir eru tveir málningarpollar á gangstéttinni. Einn gulur og einn blár.
Samkvæmt heimildum fréttastofu var sérsveit lögreglu þegar fyrir utan sendiráðið.Vísir
Hópur ungra sjálfstæðismanna lagði leið sína að rússneska sendiráðinu við Garðastræti í kvöld til að mótmæla innrás Rússa í Úkraínu. Á morgun verður hálft ár liðið frá innrásinni og ekki nóg með það heldur er þjóðhátíðardagur Úkraínu á morgun, 24. ágúst.
Samkvæmt heimildum fréttastofu var sérsveitarbíll staðsettur fyrir utan sendiráðið þegar ungu sjálfstæðismennirnir mættu og lögreglubílar voru fljótir að mæta á staðinn þar að auki. Ungmennin höfðu hafið verk við að mála úkraínska fánann á gangstéttina en voru stöðvuð við verkið og þeim vísað frá. Þá var þeim gert ljóst að þau hefðu gerst sek um eignarspjöll.
Ungir sjálfstæðismenn hafa boðað til málþings í Valhöll á morgun í tilefni þess að hálft ár verður liðið frá innrás Rússlands í Úkraínu.
Margir flýja nú frá Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, vegna ótta við árás á borgina á þjóðhátíðardegi Úkraínu sem verður á morgun, 24 ágúst. Þann dag árið 1991 lýsti Úkraína yfir sjálfstæði frá Sovétríkjunum, fjórum mánuðum fyrir fall Sovíetríkjanna.
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.