Fótbolti

Ásdís Karen kölluð inn í hópinn vegna meiðsla Öglu Maríu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ásdís Karen tekur sæti meiddrar Öglu Maríu Albertsdóttur.
Ásdís Karen tekur sæti meiddrar Öglu Maríu Albertsdóttur. Vísir/Diego

Ásdís Karen Halldórsdóttir hefur verið kölluð inn í landsliðshóp A-landsliðs kvenna fyrir leikina mikilvægu við Hvíta-Rússland og Holland í undankeppni HM 2023 sem fara fram í byrjun september. 

Agla María Albertsdóttir, leikmaður Breiðabliks, þurfti að segja sig úr landsliðshópi Þorsteins Halldórssonar fyrir komandi verkefni vegna meiðsla, eftir því sem kemur fram í tilkynningu Knattspyrnusambands Íslands.

Ásdís Karen hefur verið valin í hópinn í hennar stað en Ásdís hefur verið fastamaður í Íslandsmeistaraliði Vals sem er á toppi Bestu deildarinnar.

Ásdís lék sinn fyrsta og eina landsleik til þessa er Íslands vann Eistland 2-0 í æfingaleik þann 24. júní síðastliðinn.

Ísland er í öðru sæti riðilsins í forkeppninni með 15 stig eftir sex leiki, tveimur stigum á eftir toppliði Hollands. Ísland á þó leik inni og getur farið upp fyrir Holland með sigri á Hvít-Rússum þann 2. september.

Þá er von á úrslitaleik um efsta sæti riðilsins, og sæti á HM, er Ísland sækir þær hollensku heim þann 6. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×