Innlent

Ekki farið fram á gæslu­varð­hald

Árni Sæberg skrifar
Maðurinn var handtekinn á vettvangi skotárásarinnar og hefur fengið stöðu sakborning.
Maðurinn var handtekinn á vettvangi skotárásarinnar og hefur fengið stöðu sakborning. Vísir

Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur tilkynnt að fólkinu, sem handtekið var í tengslum við rannsókn á skotárás á Blönduósi í morgun, hafi verið sleppt úr haldi. Ekki verði farið fram á gæsluvarðhald yfir manni sem fengið hefur stöðu sakbornings í málinu. 

Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar á Facebook en Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, hefur ekki tjáð sig um málið í dag. Rannsókn málsins heyrir undir hennar embætti.

Í tilkynningunni segir að sakborningur hafi verið látinn laus að loknum skýrslutökum, vettvangsrannsókn og öðrum rannsóknaraðgerðum. Greint var frá því fyrr í dag að tvennt hefði verið handtekið í tengslum við málið.

Annað þeirra er sonur hjónanna sem ráðist var á og hitt unnusta hans. Þau voru á heimili hjónanna þegar árásin var framin og talið er að sonurinn hafi ráðist að árásarmanninum og banað honum. Þetta herma heimilidir fréttastofu.

Í samræmi við stöðu rannsóknarinnar verður ekki gerð krafa um gæsluvarðhald í málinu, að því er segir í tilkynningu lögreglunnar.


Tengdar fréttir

Svipting skot­vopna­­leyfis var í ferli

Lögregla lagði hald á skotvopn í eigu árásarmannsins, sem myrti konu í morgun og særði eiginmann hennar alvarlega í dag, fyrir nokkrum vikum. Að sögn lögreglustjórans á Norðurlandi vestra var í ferli að svipta manninn skotvopnaleyfi til bráðabirgða.

Biðla til lands­manna að standa með í­búum Blönduóss

Sveitarstjórn Húnabyggðar hefur gefið frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem segir að íbúar Húnabyggðar séu í áfalli eftir að skotárás var framin í bænum í morgun. „Við erum brotin og þiggjum alla þá góðu strauma sem þið getið veitt okkur,“ segir forseti sveitarstjórnar Húnabyggðar.

Á­rásar­manninum banað á vett­vangi

Lögreglan á Norðurlandi vestra segir að svo virðist sem manninum, sem skaut einn til bana og særði annan á Blönduósi í dag, hafi verið banað á vettvangi morðsins. Tveir eru í haldi lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×