Kona sem er alvarlega særð eftir árásina var gangandi vegfarandi í fríi og tengdist málinu ekkert. Ástand konunnar er sagt stöðugt en hún liggur enn þungt haldin á sjúkrahúsi.
Fleiri hundruð gestir verslunarmiðstöðvarinnar Emporia flúðu staðinn í skelfingu eða földs sig síðdegis í gær þegar skothljóðin hófu að heyrast. Þær stóðu ekki lengi, lögreglan var komin á vettvang örfáum mínútum síðar, og tuttugu mínútum eftir að fyrstu skotunum var hleypt af var fimmtán ára piltur handtekinn, grunaður um að hafa verið að verki.
Sá sem pilturinn skaut til bana var þrjátíu og eins árs frammámaður í genginu Satudarah Assasins samkvæmt Sydsvenska Dagbladet en konan sem var illa særð virðist hafa verið skotin óvart.
Árásarmaðurinn, fimmtán ára piltur frá Gautaborg, hefur áður komið við sögu lögreglu og var að sögn fjölmiðla á flótta úr haldi yfirvalda.
Petra Stenkula, lögreglustjóri í Malmö, segir að nú sé gengið út frá því að pilturinn hafi verið einn að verki en að vel geti verið að aðrir kunni að hafa komið að málinu.
Ástandið í Malmö er að sögn lögreglustjórans orðið virkilega alvarlegt, fólk upplifi óöryggi á stöðum eins og í verslunarmiðstöðvum og að gera þurfi allt mögulegt til að stöðva innlimun ungmenna í glæpaheiminn.
Magdalena Anderson forsætisráðherra Svíþjóðar mun í dag funda með Stenkula um ofbeldisölduna sem ríður yfir Malmö. Ríki og lögregla þurfi að hennar sögn að taka höndum saman til að bregðast við ástandinu.