Innlent

Þakkar „kjánunum“ kær­lega fyrir að þjappa hin­segin ­fólki saman

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Katrín Oddsdóttir, lögfræðingur og hinsegin kona, fyrir framan skiltin í dag - sem þá höfðu verið þrifin.
Katrín Oddsdóttir, lögfræðingur og hinsegin kona, fyrir framan skiltin í dag - sem þá höfðu verið þrifin. Vísir/Egill

Lögfræðingur segir að skemmdarverk sem unnin voru á listasýningu hinsegin daga geti hæglega flokkast sem hatursorðræða. Ítrekuð, sambærileg skemmdarverk á stuttum tíma séu gríðarlegt áhyggjuefni - en fara skuli varlega í að tala um bakslag í baráttunni.

Vegfarendur gengu í gær fram á umrædd skilti hinsegin daga útkrotuð óheillavænlegum táknum. Skiltin hafa nú öll verið þrifin en áletrunin sem á þeim stóð, 1488, er tákn sem nýnasistar hafa tileinkað sér.

Stjórn hinsegin daga hefur kært skemmdarverkin til lögreglu og vísar til hatursorðræðu. Málið er ekki einsdæmi; í byrjun júlí var sagt frá því að gelt hefði verið á hjón vegna samkynhneigðar, 23. júlí var „antikristur“ málaður yfir hinsegin fána við Grafarvogskirkju - og önnur fjandsamleg biblíutilvísun máluð yfir fánann þremur dögum síðar. Í síðustu viku skáru unglingar niður regnbogafána á Hellu og nú síðast fyrir þremur dögum var hinsegin fáni Hjallakirkju skorinn niður.

Katrín Oddsdóttir, lögfræðingur og hinsegin kona, bendir þó á að þetta séu verk örlítils minnihluta.

„Í fyrsta lagi þá finnst mér einhvern veginn ekki að ég ætti að gefa þessum kjánalegu aðgerðum of mikinn fókus því ég hef áhyggjur af því að það geti ýtt undir svona hegðun. En að hinu leytinu er ég bara verulega uggandi og áhyggjufull.“

Það megi ekki taka því léttvægt þegar kerfisbundið sé ráðist á sameiningartákn hinsegin fólks. Hún fái samt sem áður kvíðahnút í magann þegar talað er um bakslag í baráttunni, orðfæri sem hún þó skilji vel.

„Við skulum samt ekki gleyma því að fólk hefur verið að hegða sér svona árum saman og það hafa alltaf verið fordómar, leynir og ljósir, gegn hinsegin fólki í gegnum tíðina.“

En atburðir síðustu daga verði vonandi til þess að hleypa lífi í hinsegin fræðslu.

„Svo má líka þakka þessum kjánum fyrir það að þau þjappa okkur hinsegin fólkinu saman og við höfum aldrei upplifað meiri samtakamátt en akkúrat núna, þannig að bara kærar þakkir fyrir það,“ segir Katrín.


Tengdar fréttir

„Við áttum að finna hann þarna“

Regnbogafáni sem var á húni fyrir utan Hjallakirkju í Kópavogi var rifinn niður um helgina. Sunna Dóra Möller, sóknarprestur í Hjallakirkju, telur þetta hafa verið gert af ásetningi til að senda skilaboð og hefur tilkynnt málið til lögreglu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.