Erlent

Lífs­tíðar­fangelsi fyrir að keyra inn í mann­þröng í Tri­er

Atli Ísleifsson skrifar
Úr dómsal í Trier í gær.
Úr dómsal í Trier í gær. Getty

Dómstóll í Þýskalandi hefur dæmt karlmann í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa orðið fimm að bana og slasað fjölda fólks með því að keyra bíl inn í mannþröng í borginni Trier fyrsta dag desembermánaðar 2020. Manninum verður jafnframt gert að afplána dóminn með því að sæta hámarksöryggisgæslu á réttargeðdeild.

Réttarhöld í málinu höfðu staðið í um ár og féll loks dómur í málinu í gær. Alls fórust fimm í árásinni – þar á meðal fimm vikna barn og faðir þess – þegar hinn 52 ára karlmaður ók sendibíl sínum niður göngugötu í Trier sem er að finna í Rínarlandi í vesturhluta Þýskalands.

Maðurinn var ákærður fyrir fimm morð og átján tilraunir til morðs, en saksóknarar í málinu sögðu manninn lengi hafa skipulagt árásina og haft í hyggju að „drepa eða slasa eins marga og mögulegt var“. Dómari í málinu tók undir þessi orð saksóknara.

Í geðmati kom fram að árásarmaðurinn, sem er menntaður rafvirki en án atvinnu þegar árásin var gerð, glími við geðklofa og að hann muni ekkert eftir atburðum dagsins sem um ræðir. Telji árásarmaðurinn sig vera fórnarlamb „umfangsmikils samsæris“ og taldi hann sig sæta ofsóknum og eftirliti. 

Árásarmaðurinn sjálfur tjáði sig ekkert á meðan á réttarhöldunum stóð.


Tengdar fréttir

Bíl ekið á gangandi vegfarendur í Trier

Minnst tveir eru látnir og eru minnst tíu sagðir hafa særst og þar af einhverjir alvarlega þegar bíl var ekið á gangandi vegfarendur í Trier í Þýskalandi í dag.

Níu mánaða barn meðal látnu

Fjórir eru látnir eftir að maður ók bifreið inn á göngugötu í borginni Trier í Þýskalandi í dag. Meðal látnu er níu mánaða gamalt barn. Lögregla hefur handtekið 51 árs gamlan mann en hann er sagður hafa verið undir áhrifum áfengis.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×