Erlent

Skyndilegur dauði mörg þúsund fiska vekur furðu

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Dauðir fiska liggja á víð og dreif um árbakka Oder-ár milli Póllands og Þýskalands. Vísindamenn vita ekki enn hvað veldur dauða fiskanna.
Dauðir fiska liggja á víð og dreif um árbakka Oder-ár milli Póllands og Þýskalands. Vísindamenn vita ekki enn hvað veldur dauða fiskanna. AP/Patrick Pleul

Skyndilegur dauði mörg þúsund fiska í Oder-á í Póllandi hefur vakið mikla furðu. Vísindamenn hafa útilokað kvikasilfurseitrun sem mögulega skýringu en segja að selta í ánni hafi mælst óvenjuhá. Forsætisráðherra Póllands telur mikið magn efnaúrgangs valda fiskadauðunum.

Oder-á rennur frá Tékklandi að landamærum Póllands og Þýskalands áður en hún streymir út í Eystrasaltið.

Sjálfboðaliði veiðir fiskahræ upp úr Oder-á.AP/Patrick Pleul

Anna Moskwa, umhverfisráðherra Póllands, sagði að sýni úr ánni, sem hefðu verið tekin í bæði Póllandi og Þýskalandi, hefðu sýnt hátt saltmagn og að unnið væri að ítarlegri eiturefnaskýrslum í Póllandi. Þá hefði kvikasilfurseitrun verið útilokuð sem möguleg skýring.

Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, sagði á föstudag að mikið magn efnaúrgangs hefði líklega verið sturtað viljandi ofan í þessa næstlengstu á landsins. Umhverfisskaðinn væri svo mikill að það tæki líklega mörg ár fyrir ána að jafna sig. 

Yfirmaður pólsku vatnsstjórnunarstofnunarinnar sagði á fimmtudag að tíu tonn af dauðum fiskum hefðu verið fjarlægð úr ánni. Nú ynnu hundruð sjálfboðaliða að því að fjarlægja dauðu fiskana úr ánni.

Vísindamenn segja að það sé óvenjuhátt hlutfall seltu í Oder-á.AP/Patrick Pleul


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×