Fótbolti

Karólína Lea og Sveindís Jane báðar meðal fimm bestu í sinni stöðu á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir horfir á sitt fólk í stúkunni eftir jafnteflið við Frakka í lokaleiknum á EM.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir horfir á sitt fólk í stúkunni eftir jafnteflið við Frakka í lokaleiknum á EM. Vísir/Vilhelm

Tveir af yngstu leikmönnum íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta voru meðal þeirra sem stóðu sig best í sinni leikstöðu á nýloknu EM í Emglandi.

InStat tölfræðiþjónustan hefur nú farið ítarlega yfir frammistöðu allra leikmanna á Evrópumótinu sem fram fór í sumar og þar kemur ýmislegt athyglisvert í ljós.

Það eru tveir leikmenn íslenska liðsins sem komu best út hvað varðar frammistöðumat leikmanna í ákveðnum stöðum á mótinu. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir voru báðar meðal fimm bestu í sinni samkvæmt úttekt InStat.

Karólína Lea var fjórða besta af sóknartengiliðum mótsins en hún var bæði með mark og stoðsendingu í mótinu, 64 prósent sendinga hennar heppnuðust, hún átti 1,9 lykilsendingu á hverjar níutíu mínútur og 64 prósent skiptum af ferðalögum hennar með boltann gengu upp.

Þær sem voru fyrir ofan hana voru Svíinn Kosovare Asllani með 189 stig, Lina Magull frá Þýskalandi með 185 stig og Ella Toone frá Englandi með 185 stig. Karólína Lea fékk 184 stig.

Sveindís Jane var sú fimmta besta af réttfættum kantmönnum en hún fékk 175 stig. Þær sem voru fyrir ofan hana voru besti leikmaður mótsins, Beth Mead frá Englandi (197 stig), Kadidiatou Diani frá Frakklandi (186 stig), Diana Silva frá Portúgal (177 stig) og Svenja Huth frá Þýskalandi (177 stig).

Aðrir íslenskir leikmenn sem voru ofarlega í sinni stöðu samkvæmt tölfræðimati InStat voru Sandra Sigurðardóttir sem var sjöundi besti markvörðurinn og Dagný Brynjarsdóttir sem var níundi besti varnartengiliðurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×